Óvenju mikið hefur rignt á Siglufirði undanfarna daga, svo mikið að flætt hefur inn í hús og fráveitukerfi ekki haft undan vatnsflaumnum. Á lóð Síldarminjasafnsins á Siglufirði safnaðist ekki bara rigningarvatnið sem féll til jarðar, heldur streymdi þangað vatn undan byggðinni við fjórar götur í hlíðinni ofan við safnið. Jarðvatn bæði spratt undan bakkanum ofan safnhúsanna á um það bil 180 metra kafla og rann einnig stríðum straumi í lækjarbunum frá Hafnargötunni. Þetta leiddi til þess að mikið vatn safnaðist upp milli Gránu og Bátahússins og flæddi inn í Njarðarskemmu, en húsið er áfast Gránu og þar er sýning um raforkuframleiðslu í þágu síldariðnaðarins, sem opnaði árið 2015. Dýpi vatnsins í húsinu var 80 cm. þegar mest var á mánudag. Starfsfólk safnsins lagði sig fram við að bjarga því sem bjargað varð og fjarlægja gripi sem ýmist lágu á kafi í vatni eða flutu um húsið. Að sama skapi flæddi vatn inn í Ásgeirsskemmu og Frystihúsið syðst á safnlóðinni, en þar tókst starfsfólki safnsins að forða frekara tjóni með því að grafa skurði og veita vatnsflaumnum þannig að mestu út í lónið við Róaldsbrakka.

Haustið 2015 sköpuðust svipaðar aðstæður á Siglufirði eftir mikið vatnsveður í ágústmánuði. Þá safnaðist mikið vatn fyrir á safnlóðinni en vatnsdýptin í Njarðarskemmu varð þó ekki jafn mikil og nú. Í kjölfarið óskaði Síldarminjasafnið eftir því að sveitarfélagið kæmi fyrir fráveitulögn á svæðinu til að mæta slíkum flóðum í framtíðinni og sporna við frekara tjóni. Vel var tekið í erindið og því vísað til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016.

Skemmst er frá því að segja að enn hefur ekkert gerst, og ástandið því enn verra nú en fyrir fjórum árum. Enn er töluvert af vatni á safnlóðinni og hægt og bítandi lækkar vatnið í Njarðarskemmu. Starfsmenn safnsins eiga fyrir höndum mikla vinnu við að þurrka húsið, koma sýningunni aftur í samt horf, þurrka gripi og meta ástand þeirra. Á sama tíma binda forsvarsmenn safnsins vonir sínar við að sveitarfélagið standi við fyrri samþykkt og ráði bót á frárennslismálum á svæðinu, áður en að næsta vatnsveðri kemur.

Frá þessu er greint á vef Síldarminjasafnsins.

Heimild og myndir: Sild.is.