Varðskipið Þór frá Landhelgisgæslu Íslands, verður í heimsókn í  Sauðárkrókshöfn  laugardaginn 18. ágúst. Gefst þá almenningi kostur á að fara um borð og skoða skipið á milli klukkan 13 og 17.

Smíði varðskipið Þór hófst í október árið 2007 í  Asmar skipasmíðastöð sjóhersins í Chile. Verkið gekk mjög vel og var kostnaður innan heildaráætlunar.  Vegna jarðskjálftans í Chile sem varð í febrúar 2010 og flóðbylgjunnar sem reið yfir í kjölfarið varð seinkun á smíðaferlinu þar sem miklar skemmdir urðu á skipasmíðastöðinni en með einbeittum vilja og samstilltu átaki allra var skipið afhent þann 23. september 2011. Varðskipið Þór sigldi af stað til Íslands frá Chile 28. september og kom til fyrstu hafnar á Íslandi, Vestmannaeyja  26. október kl. 14:00. Skipið siglir inn í Reykjavíkurhöfn 27. október kl. 14:00.

Varðskipið Þór er tákn um nýja tíma. Varðskipin Ægir og Týr hafa þjónað Íslendingum dyggilega í 40 ár en með komu Þórs er stigið nýtt skref í  öryggismálum sjómanna og vöktun íslenska hafsvæðisins, hvort sem er á sviði auðlindagæslu, fiskveiðieftirlits, löggæslu, leitar eða björgunar.  Varðskipið er sérstaklega hannað með þarfir Íslendinga og framtíðaráskoranir á Norður Atlantshafi í huga. Skipið verður öflugur hlekkur í keðju björgunaraðila á Norður Atlantshafi og stóreykur möguleika Landhelgisgæslunnar á hafinu.

Heimild: www.lhg.is