Úrslit liggja fyrir í Fjarðargöngunni sem hófst í morgun kl. 11:00. Alls voru 240 keppendur skráðir í keppnina og var uppselt í gönguna fyrir keppnisdaginn. Keppendur voru heppnir með veður og vinda en hiti var um frostmark og hægur vindur þegar keppnin hófst.
Akureyringurinn Arnar Ólafsson frá SKA kom fyrstur í mark í 30 km göngunni á 1.32 klst. Gísli Einar Árnason frá SKA var í 2. sæti rúmlega mínútu á eftir fyrsta manni. Birkir Stefánsson var þriðji í mark, rúmlega 6 mínútum á eftir fyrsta manni. Veronika Guseva var fyrsta kvenna í mark í 30 km göngu, á tímanum 1.58 klst. Alls tóku 104 þátt í 30 km göngunni í ár og luku 102 keppni.
Í 15. km göngunni var Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson (SÓ-Elítan) í 1. sæti á tímanum 0,56 klst. Árni Stefánsson frá SKA var í 2. sæti og var aðeins 0,24 sek. á eftir fyrsta manni. Markmaður KF, Halldór Ingvar Guðmundsson var í 3. sæti á tæpum 0,58 klst. Lísebet Hauksdóttir var fyrst kvenna í 15 km göngunni á 01:01:41 klst. Alls tóku 76 keppendur þátt í 15 km göngunni, tveir mættu ekki til leiks.
Í 3. km göngunni var Árni Helgason frá SÓ í 1. sæti á 0,15 klst. Ragnhildur Vala Johnsdóttir var fyrst kvenna í 3. km göngunni á 0,16 klst. Þess má geta að 34 tóku þátt í 3. km göngunni.
Öll önnur úrslit má finna á Tímataka.net.
Myndir með frétt tók Jón Valgeir Baldursson, og eru honum færðar bestu þakkir.