Líkurnar á að stór skjálfti ríði yfir í Eyjafjarðarál eru tvö prósent. Þetta kom fram á þokkalega vel sóttum fundi sem haldinn var á Sauðárkróki í kvöld. Þar fluttu meðal annars erindi fulltrúar frá almannavarnanefnd Skagafjarðar, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofu Íslands og Viðlagatryggingu.

Á fundinum var fjallað um jarðskjálftana síðastliðin mánuð, áhrif þeirra og þróun auk þess sem farið var yfir vinnu við viðbragðsáætlun í umdæminu. Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri í Skagafirði, sagði fundinn hafa verið afar gagnlegan og fræðandi. Meðal annars hafi verið farið yfir hvað orsaki jarðskjálfta, hvers vegna íbúar í sveitarfélaginu finni fyrir þeim og hvers vegna lýst var yfir óvissustigi.

Þá var komið inn á fregnir af því að stór skjálfti geti riðið yfir á svæðinu. Ásta segir að fram hafi komi á fundinum að það væru 2% líkur á slíkum skjálfta, og einnig að virknin sé að minnka og færast austur.

Næstu skref á svæðinu eru þau að almannavarnadeild Skagafjarðar er að vinna áhættumat og aðgerðaráætlun vegna jarðskjálfta ásamt sveitarfélögunum þremur. Þá hafi farið fram stórslysaæfing í lok október.

Heimild: mbl.is