Tónlistarhátíðin Berjadagar hefjast í dag með tveimur viðburðum. Fyrri upphafstónleikarnir verða í Ólafsfjarðarkirkju kl. 20:00, þar sem Spilmenn Ríkínís spila. Síðari upphafstónleikarnir verða í Menningarhúsinu Tjarnarborg kl. 22:00 í kvöld, þar sem Brasilísk hljómsveit spilar.
Fyrri upphafstónleikar: Fagurt syngur svanurinn
Fimmtudagur 1. ágúst kl. 20:00 í Ólafsfjarðarkirkju
Spilmenn Ríkínís
Marta Guðrún Halldórsdóttir
Örn Magnússson
Halldór Bjarki Arnarson
Ásta Sigríður Arnardóttir
Örn Magnússon og Marta Guðrún Halldórsdóttir stofnuðu til tónlistahátíðarinnar Berjadagar í ágúst 1999 þegar Ásta dóttir þeirra var á fyrsta ári og Halldór Bjarki sjö ára og stóðu þau að hátíðinni til 2009. Nú snúa þau aftur, öll fjölskyldan, sem Spilmenn Ríkínís og kenna sig við fyrsta tónlistarkennarann sem sögur fara af á Íslandi og kenndi við Hólaskóla á 12. öld.
Ómþýða og lágstemmd fegurð er lýsandi fyrir flutning Spilmanna á íslenskum þjóðlögum sem þau Örn og Marta hafa tileinkað vinnu sína undanfarin ár. Saman hafa þau haft veg og vanda að því að kynna af krafti íslenskan tónlistararf og gömul hljóðfæri og með því stuðlað að vakningu á þjóðararfinum.
Á efnsskrá Spilmanna verður tónlist úr þjóðlagaarfinum sem tengist sumri og gróanda. Sungið verður fornt danskvæði, kveðnar verða formannavísur úr Ólafsfirði frá 1916 og flutt tónlist og kveðskapur sem tengist byggðarlaginu og nærsveitum þess. Við flutninginn leika þau á hljóðfæri sem til voru í sveitum landsins á öldum áður; svo sem langspil, gígjur, hörpu, symfón og gemsuhorn.
Hvort tónlist Spilmanna hljómar eins og hún gerði fyrr á öldum er alls óvíst, en sá hljómur sem verður til þegar sungið er og leikið á þessi gömlu hljóðfæri kveikir tilfinningu í brjóstinu, rétt eins og sofinn strengur sé sleginn að nýju, líkt því að við göngum til móts við veruleika sem alltaf hefur búið með okkur en við þekktum þó ekki.
Baðstofustemmning Spilmanna Ríkínís einkennir fyrri hluta kvöldsins og eftir tónleikana geta gestir komið sér fyrir í Tjarnarborg þar sem brasilísk hljómsveit stígur á svið kl. 22:00 til að skemmta Ólafsfirðingum og gestum hátíðarinnar við opinn bar.
Stakur aðgöngumiði: 3.000 kr. / Aðgöngumiði á báða upphafstónleika: 4.000 kr.
Hátíðarpassi: 8.500 kr
Frítt fyrir börn og unglinga 18 ára og yngri
Seinni upphafstónleikar: Brasilískt!
Fimmtudagur 1. ágúst kl. 22:00 í Menningarhúsinu Tjarnarborg
Brasilísk hljómsveit Berjadaga
Femke Smit
Rodrigo Lopes
Rodrigo Guito Thomas
Stefán Daði Ingólfsson
Brasilísk tónlist skartar ríkri flóru laglína, hljóma og takttegunda, og getur ýmist verið dularfull, melankólísk eða eldfjörug. Rodrigo Lopes og Rodrigo Guito Thomas eru nafnar sem búa í Ólafsfirði og koma reglulega fram sem fulltrúar brasilískrar tónlistar. Hollenska söngkonan Femke Smit kemur til Íslands til að syngja með þeim félögum en hún hefur sérhæft sig í brasilískri tónlist. Hljómsveit þeirra kemur saman í fyrsta sinn á Berjadögum og slæst hinn alkunni Stefán Daði Ingólfsson bassaleikari í hópinn. Saman munu þau fjögur leika brasilíska tónlist frá ýmsum tímum, ferðast frá Norður-Brasilíu til suðurs og flytja verk listamanna eins og Paulinho da viola, Cavaquinho, Baden Powell, Bosco, Djavan, Gonzaguinha, Gilberto Gil, Veloso og Tom Jobim. Allir hafa þessir tónlistarmenn lagt mikið af mörkum til brasilískrar tónlistar, hvort sem hún heitir samba, bossa nova eða brasilísk dægurtónlist.
Gestir mega búast við frábærri hátíð þar sem fara saman ólíkar stefnur í tónlist í flutningi fremstu listamanna landsins í bland við hina erlendu listamenn. Þetta fimmtudagskvöld slær tóninn að magnaðri dagskrá Berjadaga 2019. Brasilíska tónlistin í Tjarnarborg kallast á við íslensku tónlistina í meðförum Spilmanna Ríkínís í Ólafsfjarðarkirkju fyrr um kvöldið.
Stakur aðgöngumiði: 3.000 kr. / Aðgöngumiði á báða upphafstónleika: 4.000 kr.
Hátíðarpassi: 8.500 kr
Frítt fyrir börn og unglinga 18 ára og yngri