Tómur kirkjugarður fannst í Skagafirði við uppgröft

Rúv.is greinir frá að tómur kirkjugarður hafi fundist við fornleifauppgröft á Stóru Seylu í Skagafirði. Svo virðist sem grafirnar hafi verið teknar upp og beinin flutt yfir í annan yngri kirkjugarð.

Fornleifafræðingar vinna nú að því að grafa upp kirkjugarð frá elleftu öld sem fannst við jarðsjármælingar á Seylu í Skagafirði árið 2009. Að sögn Guðnýjar Zoëga, deildarstjóra fornleifadeildar Byggðasafns Skagafjarðar, kom fundurinn mjög á óvart því einungis var vitað um annan fornan kirkjugarð á Seylu, þann sem getið er um í Sturlungu.
Athygli vekur að í eldri garðinum hafa aðeins fundist tvær beinagrindur en aðrar grafir eru tómar eða nánast tómar. „Við teljum að beinin hafi verið færð úr þessum kirkjugarði fyrir 1100 og í yngri kirkjugarð, sem er getið í Sturlungu og sést enn á yfirborði, en bæjarstæði Seylu sem síðast stóð við yngri kirkjugarðinn hefur verið flutt á sama tíma og kirkjan og beinagrindurnar,“ segir Guðný við fréttastofu.
Hún segir jafnframt að þetta sé í fyrsta sinn sem ummerki um slíkan beinaflutning sjáist í Skagafirði.„En þetta er í 12. aldar lagabókinni Grágás, eða 12. aldar kristnirétti, þar er talað um að það eigi að fjarlægja bein úr gröfum ef að kirkja og kirkjugarður eru niðurlögð. Í raun þá er þessi garður aflagður löngu áður en lögin eru allavegna sett á blað. Þannig að þetta er ansi merkileg heimild um þennan sið,“ segir Guðný að lokum.

Heimild: Rúv.is