Víkingur frá Ólafsvík komu í heimsókn á Sauðárkróksvöll þann 19. maí Sauðárkróki í fyrsta heimaleik Tindastóls þetta árið í 1. deild karla í knattspyrnu. Tindastólsliðið ekki tapað leik á Sauðárkróki síðan árið 2010.

Í Tindastólsliðinu léku í fyrsta skipti allir Furness bræðurnir þrír, skynsamlega dreifðir um allan völl en Dominic og Sebastian Furness mættu til landsins í vikunni til að hjálpa bróðir sínum Theo í sumar.

Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt, Tindastólsliðið þó aðeins sterkara með vindinum en Víkingarnir að venju þéttir fyrir og nokkuð ljóst frá byrjun að það þurfti eitthvað sérstakt til ef Tindastólstrákarnir ætluðu að skora mar.

Fyrsta alvöru sókn Ólafsvíkinga kom á 21. mínútu þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson framherji og fyrirliði slapp inn fyrir vörn Tindastóls en elsti Furness bróðirinn Sebastian varði vel. Næsta færi féll í skaut heimamann nokkrum mínútum síðar þegar Atli Arnarsson stakk boltanum inn á Ben Everson sem kom boltanum fram hjá Einari Hjörleifssyni markmanni sem gerði vel í að brjóta ekki á Everson því Everson náði ekki að halda boltanum inn á vellinu og færið dó út.

Á 28. mínútu kom eina mark leiksins. Guðmundur Hafsteinsson skaut sér á milli hafsents og vinstri bakvarðar Tindastól, komst einn á móti Sebastian í markinu og kláraði færið vel með skoti í fjærhornið.

Við markið breyttist leikurinn. Tindastólsliðið fór á hælanna Víkingar gengu á lagið. Færin fóru að detta inn og Sebastian í markinu stóð í stórræðum. Valsarinn Arnar Sveinn og Hornfirðingurinn Björn Pálsson fengu ágæt færi án þess að skora og Tindastólsmenn önduðu léttar þegar að flautað var til hálfleiks.

Tindastólsmenn fengu ekki nema eitt skot allan seinni hálfleikinn. Víkingar fengu nokkur smá færi til að klára leikinn, það allra besta þegar Arnar Geirsson slapp einn í gegn í lok leiksins en Sebastian varði vel og hélt voninni lifandi.  0-1 sanngjörn úrslit leiksins og fyrsta tap Tindastóls á Sauðárkróki í tæp tvö ár staðreynd.

Maður leiksins augljóslega Sebastian Furness markvörður Tindastóls sem átti góðan dag á milli stanganna og lét heyra meira í sér en allir aðrir leikmenn Tindastóls til samans í leiknum. Hann gæti reynst dýrmætur fyrir Tindastól í sumar.

Hjá Víkingsliðinu var það liðsheildin sem stóð fyrir sínu og Guðmundur Hafsteinsson er ansi öflugur, heldur boltanum vel og lét varnarmenn hafa duglega fyrir því.