Skemmtileg grein frá vef Tindastóls.
Tindastóll tapaði með tveimur stigum í bikarúrslitaleiknum á móti Keflavík eins og væntanlega allir vita enda var ekki Skagfirðingur í heiminum sem var ekki á leiknum eða fylgdist með honum með einhverjum hætti. Þrátt fyrir tapið þá stóðu strákarnir sig með sóma og vöktu athygli langt út fyrir landssteinana fyrir eljusemi og baráttu.
Í stuttu máli spilaðist leikurinn þannig að Keflavík átti þrusugóðan fyrsta leikhluta, enduðu nánast hverju einustu sókn með stigi og náðu góðri 10 stiga forystu eftir að hafa náð að setja 29 stig í leiklutanum. Tindastólsmenn eltu allan leikinn og náðu stundum að minnka forskotið niður fyrir 10 stigin en þá fylgdi alltaf þristur eða þristar frá Keflvíkingum þannig að forskotið hélst í 10 stiginum nánast allan leikinn.
Í lokin reyndu Stólarnir allt hvað þeir gátu til að jafna leikinn og náðu muninum mest niður í 3 stig þegar 14 sekúndur voru eftir en það var of lítið eftir að klukkunni og Keflvíkingar enduðu sem sigurvegarar þrátt fyrir ævintýralega lokakörfu frá Þresti í lokin. Líklega ekkert alltof ósanngjarnt þar sem Keflvíkingar spiluðu ansi vel en mikið ofboðslega vorum við nálægt.
Ef sniðskotið hans Mo hefði dottið ofan í í næst síðustu sókninni, tvo eða þrjú þriggja stiga skot sem duttu ekki niður á síðustu mínútunum, Keflvíkingar hefðu ekki fengið stig á töfluna fyrir að klúðra troðslu eða hreinlega bara öll vítin sem Keflvíkingar settu niður. Keflvíkingar klúðruðu bara tveimur vítum allan leikinn sem segir kannski mikið um hversu vel þeir voru stemmdir í þessum leik.
En frábær skemmtun, mikil forréttindi að fá að taka þátt í bikarúrslitaleik og einhverstaðar heyrði ég að íþróttafréttamennirnir sem voru að lýsa leiknum hefðu aldrei orðið vitni að annari eins stemningu á bikarúrslitaleik enda var höllin troðfull og stuðningsmenn Tindastóls áttu stúkuna. Þarf ekkert að deila um það.
En allt í allt, allir leikmenn og stuðningsmenn eiga að ganga stoltir af þessum leik og vonandi mætum við aftur þarna að ári og klárum þetta dæmi.
Heimild: Tindastóll.is