H-listinn í Fjallabyggð lagði fram tillögu á síðasta bæjarráðsfundi um að forgangsraða framkvæmdafé í mörg smærri verkefni og fresta stærri verkefnum. Tillögunni var hafnað af meirihluta bæjarráðs Fjallabyggðar, en lesa má tillögu Jóns Valgeirs hér fyrir neðan.
“H-listinn leggur til að farið verði í að endurskoða framkvæmdaáætlun Fjallabyggðar með það í huga að forgangsraða framkvæmdafé í mörg smærri verkefni í stað stærri verkefna s.s. gervigrasvallar en það verkefni krefst mikilla fjárútláta en er ekki endilega mannaflafrekt. Það er líklegt að atvinnuleysi mun aukast í sveitarfélaginu og erfitt getur reynst fyrir skólafólk að fá vinnu í sveitarfélaginu í sumar. Því er nauðsynlegt að Fjallabyggð bregðist nú þegar við og reyni að gera allt til að auka framkvæmdir þannig að hægt verði að sporna við auknu atvinnuleysi s.s. í viðhaldi eigna sveitarfélagsins, fara í framkvæmdir sem snúa að umhverfismálum og fleira. Að nógu er að taka.
H-listinn er tilbúinn til að vinna að tillögum með meirihlutanum í þessu stóra verkefni og nýta allar leiðir til að kalla eftir tillögum um verkefni, t.d. frá nefndum og frá bæjarbúum. Þessi vinna þarf að hefjast strax.”
Meirihluti bæjarráðs hafnaði tillögu H-listans og vísaði í bókun við lið 3 í fundargerðinni.
Tillaga H-listans var því felld með tveimur atkvæðum Helgu Helgadóttur og Nönnu Árnadóttur gegn einu atkvæði Jóns Valgeirs Baldurssonar.
Tillaga meirihlutans, sem bókuð var í 3. lið var þessi:
Meirihluti bæjarráðs felur bæjarstjóra, forseta bæjarstjórnar og formanni bæjarráðs að móta tillögur að frekari aðgerðaáætlun sveitarfélagsins. Við mótun tillagna skal horft til fjárhags sveitarfélagsins, fjárhagsáætlunar, framkvæmdaáætlunar og hugmynda og ábendinga Sambands Íslenskra sveitarfélaga frá 20. mars sl. Tillögur að aðgerðum verði lagðar fyrir í bæjarráði eða bæjarstjórn eftir því sem fram vindur. – Var þessi tillaga samþykkt en minnihlutinn sat hjá.