Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Íslandsmótið í 3. deild karla í knattspyrnu verður hálfnað eftir næstu umferð. 10 umferðir eru búnar og eru línur í topp- og botnbaráttunni farnar að skýrast. Fjögur lið eru nú búin að brjóta sig frá öðrum liðum, og er nú sex stiga munur á liðinu í 4. og 5. sætinu. KF er í hörku baráttu og er í 3. sætinu eftir 10 leiki og er stutt í næstu lið fyrir ofan. KF hefur unnið 7 leiki, gert eitt jafntefli og tapað tveimur leikjum. Liðinu hefur gengið bæði vel á heimavelli og útivelli fram til þessa, og hefur liðið leikið sex leiki á útivelli og unnið fjóra, gert eitt jafntefli og tapað einum. Á heimavelli hefur liðið leikið fjóra leiki, unnið þrjá og tapað einum. Næstu þrír leikir liðsins verða á heimavelli og eru allir mikilvægir í baráttunni um efstu sætin í deildinni.

Jákvæð þróun hefur verið á markaskorun liðsins á þessu tímabili. Liðinu hefur tekist að skora 25 mörk og hefur Alexander Már skorað 12 af þeim og er markahæsti maður 3. deildar. Í lok síðasta tímabils þá var Björn Andri markahæstur með 6 mörk, árið 2017 var Ljubomir með 6 mörk, og árið 2016 þegar liðið var í 2. deild skoraði Isaac Ruben Rodriguez Ojeda 4 mörk. Liðinu hefur því sárlega vantað öflugan og stöðugan markaskorara síðustu árin.

Á sama tíma í fyrra, eftir 10 leiki þá var liðið aðeins í 7. sæti með 13 stig, og hafði unnið fjóra leiki, gert eitt jafntefli og tapað fimm leikjum. Þá hafði liðið aðeins skorað 13 mörk og fengið á sig 13.

KF leikur í kvöld gegn Einherja og má búast við erfiðum leik. Leikurinn hefst kl. 19:00 á Ólafsfjarðarvelli.

Næsti leikur í 12. umferðinni verður svo sunnudaginn 14. júlí kl. 16:00 gegn Augnablik á Ólafsfjarðarvelli.

Í 13. umferðinni leikur KF gegn Álftanesi, laugardaginn 20. júlí kl. 16:00 á Ólafsfjarðarvelli.

Nánar verður fjallað um þessa leiki þegar úrslit liggja fyrir.