Þórarinn endurkjörinn formaður UÍF á ársþingi

Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar hélt ársþing sitt í Ólafsfirði 23. maí síðastliðinn. Alls voru 24 þingfulltrúar mættir af 32 sem rétt höfðu til þingsetu.  Þingforseti var Linda Lea Bogadóttir.  Töluverðar breytingar voru gerðar á reglugerð um lottóúthlutun til aðildarfélaga sem lutu aðallega að því að styðja enn betur við yngri iðkendur. Þórarinn Hannesson var endurkjörinn formaður UÍF með lófaklappi.

Guðný Helgadóttir, fyrrum formaður UÍF, var sæmd Gullmerki ÍSÍ fyrir hennar góðu störf í þágu íþróttahreyfingarinnar. Guðný var kjörin fyrsti formaður Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar árið 2009, eftir sameiningu ÍBS og UÍÓ og gegndi því embætti allt til ársins 2016. Ingi Þór Ágústsson afhenti Guðnýju heiðursviðurkenninguna á þinginu fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ.

Ingi Þór Ágústsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ og Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri voru fulltrúar ÍSÍ á þinginu.

Heimild: isi.is