Tag Archives: vaðlaheiðargöng

Sprengt í Vaðlaheiði

Mörgum íbúum við Eyjafjörð brá í brún um áttaleytið í gærkvöldi þegar hár hvellur kvað við. Verktakafyrirtækið G. Hjálmarsson sprengdi þá bergklöpp í Vaðlaheiði sem nota á í undirstöður fyrir bráðabirgðabrú í tengslum við gerð Vaðlaheiðarganga. Lögregla lokaði veginum á meðan.

Hjálmar Guðmundsson, verkstjóri, segir að úr sprengingunni hafi komið um 3.500 rúmmetrar af efni. Hann segir að fyrirtækið ætli að sprengja upp tvo kletta í viðbót, en þær sprengingar verði smærri í sniðum og hljóðlátari.

Heimild: www.ruv.is

Vaðlaheiðargöng á dagskrá

Nú í vikunni lauk þriðju og síðustu umræðu og atkvæðagreiðslu um fjármögnun Vaðlaheiðarganga. Málið var samþykkt með 29 atkvæðum gegn 13 og 5 sátu hjá.

Almenn gleði ríkir á Norð-austurlandi vegna þessa og er mál manna að framkvæmdin muni hafa jákvæð áhrif á margvíslegan hátt og ekki síst á bjartsýni fólks um að nú séu hin margumræddu hjól atvinnulífsins komin á ágætan skrið.

Nýjustu tölur frá Vinnumálastofnun sýna að atvinnuleysi er nú minna á Norð-austurlandi en verið hefur um langt skeið, eða 4,0% og hefur atvinnulausum einstaklingum fækkað um 170 frá sama mánuði 2011 en þá var atvinnuleysi á svæðinu 5,2%