Tag Archives: skagafjörður

Vinnumálastofnun styður Skagafjörð um 5 sumarstörf

Vinnumálastofnun hefur tilkynnt að Sveitarfélagið Skagafjörður hafi fengið úthlutað stuðningi fyrir 5 störfum í sumar, til að styðja við sumarráðningar námsmanna og atvinnuleitenda sem er sami fjöldi og árið 2011.  Sveitarfélagið Skagafjörður sótti um 20 störf.

Byggðarráð Skagafjarðar hefur lýst vonbrigðum með niðurstöðuna þar sem Skagafjörður nýtur ekki þeirrar fjölgunar frá fyrra ári, sem auglýst var af hálfu Vinnumálastofnunar.

Vortónleikar Tónlistarskóla Skagafjarðar og innritun

Tónlistarskóli Skagafjarðar býður til tónleikaveislu í Sæluvikunni, þar sem nemendur koma fram á öllum aldri  í stórum sem smáum hópum á eftirtöldum stöðum:

 

 Á Sauðárkróki:

 

 • Sunnudaginn 6. maí
 • Tónlistarskólinn kl.14:00
 • Frímúrarasalurinn kl.15:30  og  kl.17:00 (Lengra komnir nemendur)
 • Mánudaginn 7. maí. Tónlistarskólinn kl.17:00

Innritun fyrir næsta skólaár hófst 1. maí og stendur til 18. maí

Hægt er að skrá í gegnum íbúagátt sveitafélagsins eða  fá umsóknareyðublöð í tónlistarskólunum. Frekari upplýsinga veitir skólastjóri í síma 453-5790.

Ljósmyndavefur Skagfirðinga hefur opnað

Nú hefur Ljósmyndavefur Skagfirðinga opnað. Ríflega 10.000 myndir eru þar frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.

Á vefnum er hægt að leita í þremur söfnum sem þar eru varðveitt. Safni Héraðssskjalasafns Skagfirðinga, safni Söguseturs íslenska hestsins og safni Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Hægt er að fara inn á vefinn á þessari slóð

www.skagafjordur.is/myndir

Góða skemmtun.

Sauðárkrókur.is

Sæluviku líkur á sunnudaginn

Sæluvika, lista- og menningarhátíð í Skagafirði, var sett sl. sunnudaginn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki þar sem jafnframt fór fram glæsileg atvinnulífssýning. Stendur Sæluvikan til sunnudagsins 6. maí.

Sæluvika Skagfirðinga er ein elsta menningarhátíð landsins en upphaf hennar má rekja til ársins 1874 þegar svokallaðir sýslufundir hófust en skemmtanir voru jafnan haldnir í tengslum við þessa fundi og tóku þær smám saman á sig þá mynd sem Sæluvikan er í dag.

Í Sæluviku 2012 er að finna fjölmarga lista- og menningarviðburði, s.s. tónlistarveislur, myndlistasýningar, galakvöld, útgáfutónleika, kirkjukvöld, ljósmyndasýningar, leiksýningar, körfuboltamót, hestasýningar og fjölmargt fleira. Sælan hófst reyndar þegar sl. miðvikudag en í svokallaðri Forsælu, dagana í aðdraganda Sæluviku, er jafnan mikið um að vera í menningarlífinu í Skagafirði.

Nokkrir menningarviðburðir verða í Skagafirði næstu daga.  Má þar nefna Sönglög í Sæluviku – sönglagahátíð í Menningarhúsinu Miðgarði, málverkasýningu Tolla og Sossu, sýningu Leikfélags Sauðárkróks á verkinu Tveir tvöfaldir, tónleika Draumaradda norðursins, opnun ljósmyndavefs Skagafjarðar, tónleika með Multi Musica hópnum þar sem flutt verða lög þekktra söngkvenna frá seinni heimsstyrjöldinni, kóramót í Miðgarði, listasmiðju í Litla-skógi og fjölmargt fleira.

Allir, ungir sem aldnir, eiga því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í Sæluviku Skagfirðinga. Nánari upplýsingar um alla viðburðina má finna á www.saeluvika.is

Sæluvikan 2012 er hafin í Skagafirði

Sæluvikan í Skagafirði er hafin. Dagskráin er fjölbreytt að vanda. Hægt er að sjá alla dagskránna í bæklingi hérna fyrir alla dagana.

Dagskráin í dag 1. maí.

Talnaspeki :: SUNDLAUG SAUÐÁRKRÓKS
Benedikt Lafleur býður upp á talnagreiningu.

Nudd og dekur :: SUNDLAUG SAUÐÁRKRÓKS
Þorgerður Eva Þórhallsdóttir býður upp á nudd og dekur í vatni.

13-16.00 Opinn dagur hjá Skotfélaginu Ósmann :: SKOTSVÆÐI ÓSMANNS Á REYKJASTRÖND
13-17.00 Stefnumót á Krók

:: SAFNAHÚSIÐ
Myndlistarsýning Sossu og Tolla er opin í Safnahúsinu frá kl. 13–17 alla daga.
14.00 Vortónleikar Tónlistarskóla Skagafjarðar

:: MENNINGARHÚSIÐ MIÐGARÐUR
Almennir tónleikar kl. 14:00 og 14:30.
o15.00 Hátíðarhöld 1. maí

:: BÓKNÁMSHÚS FNV
Stéttarfélögin í Skagafirði bjóða félagsmönnum sínum
til hátíðardagskrár í tilefni dagsins.
16-19.00

Litbrigði samfélags :: GÚTTÓ, SAUÐÁRKRÓKUR
Samsýning listamanna í Myndlistarfélaginu Sólon úr Skagafirði og nágrenni.
16-18.00

Opið hús :: GISTIHEIMILIÐ MIKLIGARÐUR
17.00 Vortónleikar Tónlistarskóla Skagafjarðar

:: MENNINGARHÚSIÐ MIÐGARÐUR Tónleikar strengjadeildar.
20.30 Tveir tvöfaldir :: BIFRÖST
Leikfélag Sauðárkróks sýnir leikrit eftir Ray Cooney. Leikstjóri: Ingrid Jónsdóttir.
Miðapantanir í síma 849 9434.

Ekkert hross náði Landsmótseinkunn á Kynbótasýningu á Sauðárkróki

Ekkert hross náði Landsmótseinkunn á Kynbótasýningunni á Sauðárkróki sem lauk í gær á yfirlitsýningu. Næst því komst hryssan Katla frá Blönduósi sem Tryggvi Björnsson sýndi í fordómi og Bjarni Jónasson í yfirliti. Hún hlaut 7,84 í aðaleinkunn í fjögurra vetra flokki. Katla er undan Akk frá Brautarholti og Kantötu frá Sveinatungu.

Ljósmyndir frá sýningunni má sjá hér.

Lokahóf körfuknattleiksdeildar Tindastóls

Lokahóf meistaraflokks Tindastóls í körfubolta var haldið síðasta vetrardag með stæl. Helgi Rafn Viggósson var valinn besti leikmaður keppnistímabilsins af félögum sínum og er hann vel að þeim titli kominn.

Eftir gómsætan mat og vel heppnuð skemmtiatriði var komið að hefðbundnum verðlaunaafhendingum sem ávallt ríkir spenna fyrir.

Verðlaunahafar að þessu sinni urðu eftirtaldir leikmenn:

 

 •  Mestu framfarir: Þröstur Leó Jóhannsson og Hreinn Gunnar Birgisson
 •  Stigahæstur: Helgi Rafn Viggósson
 •  Frákastahæstur: Helgi Rafn Viggósson
 •  Besta ástundun: Hreinn Gunnar Birgisson
 •  Efnilegastur: Pálmi Geir Jónsson
 •  Besti varnarmaður: Helgi Freyr Margeirsson
 •  Besti leikmaður kosinn af leikmönnum: Helgi Rafn Viggósson

Helgi Rafn skoraði 8.9 stig að meðaltali í leik og tók 6 fráköst.

Nemandi úr Varmahlíðarskóla vann Stærðfræðikeppnina

Föstudaginn 20. apríl fór fram stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og 9. bekkjar, en keppnin hefur nú verið haldin árlega í fimmtán ár.

Í fyrsta sæti var Hákon Ingi Stefánsson, Varmahlíðarskóla, í öðru sæti var Valdimar Daðason, Dalvíkurskóla og í þriðja sæti var Ásdís Birta Árnadóttir, Höfðaskóla.  Undankeppni stærðfræðikeppninnar fór fram í 15. mars og tóku 115 nemendur frá Norðurlandi vestra,  Fjallabyggð og Dalvíkurskóla þátt í henni. Að þessu sinni komust 14 nemendur í úrslitakeppnina.

Af þeim voru 2 frá Árskóla, 3 frá Varmahlíðarskóla, 1 frá Höfðaskóla, 3 frá Blönduskóla, 2 frá Grunnskóla Húnaþings vestra, 2 frá Grunnskóla Fjallabyggðar og 1 frá Dalvíkurskóla.

Stærðfræðikeppnin er samstarfsverkefni FNV, grunnskóla, stofnana og fyrirtækja á Norðurlandi vestra auk þess sem fyrirtæki utan kjördæmisins koma að verkefninu. Kennarar í stærðfræði við FNV báru hitann og þungann af gerð og yfirferð keppnisgagna, en grunnskólarnir sáu um fyrirlögn dæmanna í undankeppninni.

Byggðarráð Skagafjarðar varar við kvótafrumvörpum

Byggðarráð Skagafjarðar hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

Við undirrituð vörum Alþingi sterklega við því að samþykkja fyrirliggjandi frumvörp ríkisstjórnarinnar til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Greinargerð óháðra sérfræðinga, sem fylgir frumvörpunum og sem unnin var að beiðni sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðuneytisins, ætti að hvetja löggjafann að staldra við og ígrunda gaumgæfilega áhrif lagasetningarinnar á rekstur og afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og á sjávarbyggðir landsins. Sérfræðingarnir búast við ”umhleypingum á næstu árum meðan útgerðin lagar sig að breyttum aðstæðum“ og segja að áformuð lagasetning muni verða ”mjög íþyngjandi fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja“. Enn fremur að hækkun veiðigjalds muni án efa ”kippa stoðum undan skuldsettari útgerðarfyrirtækjum.“ Þá benda sérfræðingarnir á að byggðaaðgerðir frumvarpsins séu ”ólíklegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að“, enda skorti enn þann ”langtímastöðugleika sem getur skapað grundvöll fyrir uppbyggingu atvinnulífs í sjávarbyggðum“. Undirritaðir telja að þessi varnaðarorð, sem fylgja frumvörpunum, séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja málin til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að ”umhleypingum“ með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkunar útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingagetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með en minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er. Við slíkt verður ekki unað.

Stefán Vagn Stefánsson, Bjarni Jónsson, Jón Magnússon og Þorsteinn T. Broddason.

Hlaupa 65 km til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar

Á morgun miðvikudaginn 17. apríl  munu nemendur 7. og 8. bekkjar Varmahlíðarskóla hlaupa áheitahlaup til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar, en undanfarna daga hafa þeir verið að safna áheitum til málefnisins. Stefnt er að hlaupa 65 km hring: Frá Varmahlíð út á Sauðárkrók, yfir Hegranesið, fram úthlíð Blönduhlíðar og aftur í Varmahlíð meðfram þjóðvegi 1.

Hefja fyrstu menn hlaupið klukkan 10 og áætlað er að þeir síðustu mæti um kvöldmatarleytið aftur í Varmahlíð. Í dag er síðasti dagur nemenda til að safna áheitum og vonast er til að tekið verði vel á móti þeim.

Á morgun, miðvikudaginn 17. apríl klukkan 12:40 verða svo sömu bekkir með fræðslu og skemmtun um tóbak og notkun þess, en bæði fræðslan og áheitahlaupið eru framlag verkefnisins Tóbakslaus bekkur sem Landlæknisembættið heldur utan um.

Heimild: Feykir.is

Jarðstrengur of dýr um Skagafjörð

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, segir að ekki komi til greina miðað við núverandi aðstæður að leggja nýja Blöndulínu í jarðstreng um Skagafjörð. Landeigendur þar segjast ekki munu leyfa lagningu loftlínu yfir þeirra lönd.

Landsnet undirbýr nú lagningu nýrrar 220 kílóvolta háspennulínu frá Blönduvirkjun til Akureyrar, Blöndulínu 3. Með henni á að styrkja flutningskerfið því núverandi byggðalína uppfyllir ekki lengur kröfur um flutningsgetu. Tvær tillögur eru um lagningu línunnar um Skagafjörð og gerir önnur ráð fyrir svokallaðri Efribyggðarleið. Landeigendur þar hafa lýst því yfir að þeir muni alfarið hafna lagningu loftlínu og benda þess í stað á lagningu jarðstrengs.

Þórður segist þeirrar skoðunar að Landsnet geti ekki með góðu móti hafið þá vegferð að leggja jarðstrengi á alhæstu spennum vegna þess mikla kostnaðarmunar sem sé á milli línulagningar og jarðstrengs.

Þórður bendir á að nær allar nýjar lagnir fyrir lægri spennu séu í formi jarðstrengja. Blöndulína 3 verði hinsvegar ekki byggð fyrir lægri spennu en 220 kílóvolt og miðað við núverandi aðstæður muni kostnaður við slíkan jarðstreng hafa veruleg áhrif á flutningsverð raforku til lengri tíma litið. Hinsvegar liggi fyrir Alþingi þingsárlyktunartillaga um frekari jarðstrengjavæðingu, niðurstöðu þar sé að vænta næsta haust.

Þórður segir að ekkert sé þannig í pípunum að rjúka þurfi af stað í þetta verkefni að leggja Blöndulínu 3. Landsnet vilji gera það sem allra fyrst en geti alveg beðið í einhverja mánuði í viðbót eftir því að taka skynsamlega ákvörðun.

Heimild: Rúv.is

Sauðburður hafinn í Skagafirði

Sauðburður hefst ekki fyrr en í maí á flestum bæjum, en á Minni-Ökrum í Skagafirði hófust vorverkin óvenju snemma í ár og þar skoppa nú nýfædd lömb í túni.

Fyrsta lambið komin í heiminn þann 22. mars og síðan hafa 33 ær borið. Lömbin á Minni-Ökrum eru því orðin 63 talsins.

Þar sem hrútarnir voru teknir frá ánum þremur dögum seinna en vanalega segist Vagn Þormar Stefánsson, bóndi á Minni-Ökrum, hafa reiknað með því að hann fengi nokkur snemmborin lömb.

Hann grunaði hinsvegar ekki að þau yrðu svona mörg. Sauðburðurinn hefur gengið vel að hans sögn og náttúran hefur tekið blíðlega á móti ungviðinu með nýsprottnu grasi í túnum.

Heimild: Rúv.is

Ljósmynd: Sauðárkrókur.is

Skagfirskur stúlknakór gerir það gott

Stúlknakórinn Draumaraddir Norðursins í Skagafirði syngja um súkkulaðilandið sem margir hafa eflaust heimsótt um páskana.

Undir styrkri stjórn Alexöndru Chernyshova hafa stelpurnar náð miklum árangri, ferðast út um allan heim til að syngja og gáfu nýlega út geisladisk þar sem bjartar og fallegar raddir þeirra njóta sín. Alexandra segir stelpurnar vera svona flinkar söngkonur því þær æfa sig stíft en þó er gleðin og ánægjan alltaf í fyrirrúmi. Þarna eru saman komnar söngstjörnur framtíðarinnar enda hafa stelpurnar mikinn metnað til að verða fullnuma í sönglistinni.

Heimasíða stúlknakórsins er hér.
http://www.dreamvoices.is/pages.php?idpage=10915

Heimild: Rúv.is

Körfuboltamót Molduxa í Skagafirði í maí

Hið árlega vormót Molduxa  í körfuknattleik verður  haldið laugardaginn 5. maí. 2012. Mótið er fyrir körfuknattleikslið  40 ára og eldri hjá körlum og fyrir kvennalið 20 ára og eldri. Stefnt er að því að mótið byrji klukkan  12 á laugardegi og er leiktíminn 2 x 12 mínútur og leikur hvert lið 3- 4 leiki.

Hægt er að skrá lið og fá nánari upplýsingar hjá Alla Munda á allimunda@internet.is  eða í síma 865-0819 og lýkur  skráningu 25. apríl. Þess skal getið að mótið er hluti af sæluvikugleði í Skagafirði þannig að nóg er um að vera um þessa helgi á Sauðárkróki.

Heimasíða Molduxa er www.molduxar.is

Skíðasvæðið í Tindastóli opið í dag

Skíðasvæðið í Tindastóli verður opið til klukkan 16 í dag. Núna er snjókoma og hægviðri þessa stundina og færið er alveg ágætt.  Það er um að gera að nota nú páskafríið vel og drífa sig á skíði.

 • kl. 10:00 til 16:00 Opið á skíðasvæðinu.
 • Troðin göngubraut bara fyrir alla.
 • Mætum í eftirtektarverðum fötum 
 • kl. 12.00   Paint ball skotið í mark, verð 1000 kr hver 100 skot
 • kl. 13.00   Þrautabraut fyrir 8 ára og yngri allir fá páskaegg að loknum tveimur ferðum.
 • kl. 13.00   Hæfnisbraut á brettum, páskaegg í verðlaun,  mikið hlegið.  
 • Kl. 14:00   Snjóþotu- og sleðarall – Músík í fjallinu.

Golfklúbbur Sauðárkróks: Æfingasvæðið opið !

Nú geta Skagfirskir kylfingar farið að munda kylfurnar því æfingasvæðið hjá Golfklúbbi Sauðárkróks er opið og vor í lofti. Um páskanna verður boltavélin í gangi. Þeim sem vantar token í vélina er bent á að hafa samband við Pétur Friðjónsson eða Mugg vallarstjóra og þeir munu bjarga málum.

Heimasíða Golfklúbbs Sauðárkróks er hér.

Hljómsveit úr Skagafirði í 3. sæti í Músíktilraunum 2012

Skagfirska hljómsveitin Funk that Shit! lenti í þriðja sæti í Músíktilraunum 2012 á úrslitakvöldi keppninnar í Austurbæ í gærkvöldi. Gítarleikar sveitarinnar, Reynir Snær Magnússon, hlaut nafnbótina Gítarleikari Músíktilrauna 2012 og Guðmundur Ingi Halldórsson, félagi hans úr Funk that Shit!, var valinn besti bassaleikarinn.

Á heimasíðu Rúv.is kemur fram að hljómsveitin RetRobot hafi fagnað sigri í keppninni og í öðru sæti varð hljómsveitin Þoka. Hljómborðsleikari Músíktilrauna er Heimir Klemensson úr Þoku, trommari ársins var valinn Sólrún Mjöll Kjartansdóttir úr White Signal og rafheili ársins er Daði Freyr Pétursson úr RetRobot. Söngvaraverðlaunin hlaut Agnes Björgvinsdóttir úr hljómsveitinni Þoku. Hljómsveit fólksins var hljómsveitin White Signal en hún var valin í símakosningu.

Stóðhestaveisla á Sauðárkróki

Hin árlega „Stóðhestaveisla“ fer fram í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki á laugardagskvöldið kemur, 31. mars og hefst kl. 20 þar sem á fjórða tug stóðhesta mun koma fram ásamt mörgum knáum knöpum.

Samkvæmt fréttatilkynningu hófst forsala miða í gær, miðvikudag, en forsalan fer fram hjá N1 í Staðarskála, á Blönduósi, á Sauðárkróki og við Hörgárbraut á Akureyri. Miðaverð er 3.000 kr. í forsölu, en 3.500 kr. við innganginn. Innifalið í miðaverðinu er 370 blaðsíðna stóðhestabók þar sem kynntir eru 310 stóðhestar víðs vegar af landinu.

Gustur frá Hóli verður heiðurshestur sýningarinnar fyrir norðan og mun gleðja gesti með nærveru sinni.

Það verður því nóg um að vera fyrir hestaáhugamenn í Skagafirði á laugardagskvöldið.

Heimild: Mbl.is

Sumarstarf í ferðaþjónustu á Hofsósi

Ráðgjafi eða sölumaður í ferðaþjónustu Ferðaþjónusta – “Vinnandi vegur ” Hofsós.

Fyrirtæki/stofnun: Vesturfarasetrið ses

Vesturfarasetrið leitar að starsfólki í ferðaþjónustutengd störf í sumar. Störfin eru hluti af átakinu “Vinnandi vegur”. Nánari upplýsingar veitir Vinnumálastofnun á Norðurlandi vestra á netfanginu : nordurland.vestra@vmst.is eða í síma 455-4200.

Skíðakennsla Tindastóls hefst 21 mars

Byrjendanámskeið í skíðakennslu Tindastóls hefst miðvikudaginn 21. mars og stendur til 25. mars. Kennt er í eina klukkustund í senn.

Dagskráin er:

 • miðvikudagur 16:00-17:00
 • fimmtudagur 16:00-17:00
 • föstudagur 16:00-17:00
 • sunnudagur 11:00-12:00 og 13:00-14:00
 • Gjaldið er 10,000.-kr

Krakkarnir geta fengið búnað á leigunni endurgjaldslaust á meðan á námskeiðinu stendur. Foreldrar geta fengið búnað endurgjaldslaust í einn dag. Markmiðið er að allir verði skíðandi og geti tekið lyftu eftir námskeiðið.

Skráning fer fram frá 15.mars til 18.mars á Skíðasvæði Tindastóls.

Karlmaður barði nemenda í Hólaskóla

Kona á þrítugsaldri, nemandi í Hólaskóla, var flutt á sjúkrahús í Reykjavík aðfararnótt sunnudags eftir alvarlega líkamsárás á nemendagörðum skólans. Karlmaður sem var gestkomandi í skólanum réðist á konuna eftir gleðskap og barði hana ítrekað í andlitið.

Hlaut hún mikla áverka, skurði í andlit og þá brotnuðu í henni margar tennur.

Að sögn varðstjóra lögreglunnar á Sauðárkróki er líðan konunnar eftir atvikum. Árásarmaðurinn var handtekinn um nóttina og yfirheyrður á sunnudag. Málið telst upplýst.

heimild: Rúv.is

Skýrsla vegna byggingar Árskóla

Fundargerð Sveitarstjórnar vegna byggingar Árskóla:

Sigurjón Þórðarson tók  til máls og lagði fram eftirfarandi bókun.

Skýrsla Centra um fjárhagslega áhrif viðbyggingar við Árskóla á fjárhag sveitarfélagsins, byggir fyrst og fremst á óraunhæfum áætlunum og framreiknuðum hagræðingaraðgerðum í rekstri Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem ekki bólar enn á. Á óvart kemur sömuleiðis að Centra skuli leggja það til að farið verið á svig við 64. grein nýsamþykktra sveitarstjórnarlaga, sem kveður á um 150% skuldaþak.

Stefán Vagn Stefánsson tók til máls og ítrekar fyrri bókun byggðarráðs.

”Ljóst er út frá þeim gögnum sem fyrir liggja að sveitarfélagið ræður vel við framkvæmdina. Með henni fer sveitarfélagið ekki upp fyrir það skuldaþak sem sett hefur verið og munar nokkru þar um. Niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi og tala þær sínu máli: “Ástand núverandi skólahúsnæðis að Freyjugötu veldur því að nauðsynlegt er að verja verulegum fjármunum til viðhalds eða byggja viðbyggingu við Árskóla. Miðað við þær forsendur um kostnað og fjármögnun sem framkvæmdin byggir á, auk þess rekstrarhagræðis sem af henni hlýst, er viðbygging við Árskóla mun hagfelldari fyrir sveitarfélagið og mun hafa jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélagsins.”

 

Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri tók til máls og lagði fram eftirfarandi:

Sveitarstjóri óskar bókað, í  64.grein sveitarstjórnarlaga stendur m.a.:

64. gr. Viðmiðanir um afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga.
Ráðherra skilgreinir í reglugerð nánar þau viðmið sem lögð eru til grundvallar skv. 2. mgr., þar á meðal um útgjöld, tekjur, eignir, skuldir og skuldbindingar og aðlögun sveitarfélaga að þeim. Þar skal jafnframt heimilt að undanþiggja nánar tilgreindar skuldir eða skuldbindingar einstakra sveitarfélaga þannig að þær hafi engin eða aðeins hlutfallsleg áhrif skv. 2. tölul. 2. mgr.

Texti frá Skagafjordur.is

 

Kaupfélag Skagfirðinga fjármagnar skólabyggingu

Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur samþykkt að ráðast í framkvæmdir við viðbyggingu Árskóla á Sauðárkróki. Kaupfélag Skagfirðinga hefur boðist til að lána fyrir framkvæmdum fyrsta áfanga, án vaxta og afborgana, á byggingartímanum.

Skólinn starfar nú á tveimur stöðum í bænum og er ætlunin að byggja við og bæta skólahúsið við Skagfirðingabraut og færa allt skólastarfið þangað. Sameining skólans á einum stað skapar mikla hagræðingu og er til bóta fyrir nemendur og starfsfólk.

Sundlaug Sauðárkróks opin lengur

Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti í gær á fundi sínum að hafa Sundlaug Sauðárkróks opna mánudaga – fimmtudaga frá kl. 06.50-20.45 og lengja þar með afgreiðslutímann frá því sem fyrr hafði verið ákveðið. Föstudaga verður opið til kl. 20.00  og um helgar frá kl. 10-16.  Gestir eru beðnir um að fara upp úr laug 15 mínútum fyrir lokun.

Einnig var samþykkt að taka upp að nýju gjald fyrir aðgang að Gufuklefanum.  Héðan í frá verða gestir eldri en 18 ára sem vilja fara í gufu rukkaðir um 500 krónur aukalega. Þá verður einnig boðið uppá að leigja gufuklefann fyrir einkatíma, klukkutíma í senn og nemur klukkutímaleigan 4.000.- krónum.

Breytingin tekur gildi frá og með mánudeginum 12. mars.

Sögustund af stofnun félagsins Drangey

Sögustund af stofnun félagsins

Íþróttafélagið Drangey

Á fögrum haustdegi, 10. október 1946, kom saman á Sauðárkróki hópur drengja á aldrinum 9-13 ára til að stofna íþróttafélag. Fundurinn var haldinn að lokinni æfingu á íþróttavellinum úti á Eyri, uppi í brekkunni undir berum himni. Skagafjörður skartaði sínu fegursta, útverðirnir, Drangey, Málmey og Þórðarhöfði, blöstu við sjónum okkar að ógleymdum Tindastól og Reykjaströnd. Þetta var heillandi dagur, og áhuginn skein úr hverju andliti.  Forgöngumenn að stofnun félagsins voru þeir Kári Jónsson, Gísli Blöndal og Hörður Pálsson. Tvær tillögur komu um heiti félagsins. Hörður Pálsson kom með þá tillögu að nafnið yrði  Drangey en Gísli Blöndal stakk upp á því að félagið yrði kennt við bæinn og skirt íþróttafélag Sauðárkróks. Ræddum við drengirnir málin um stund og ákváðum að nefna íþróttafélagið Drangey. Síðan var stjórn kosin. Hana skipuðu Hörður Pálsson formaður, Kári Jónsson ritari og Ásgrímur Helgason gjaldkeri. Fundurinn ákvað einnig að haldið yrði innanfélagsmót næsta sunnudag og er það eitt merki hins einhuga vilja fundarmanna. Síðar voru félaginu sett lög, en markmið þess var að æfa og keppa í frjálsum íþróttum.

Að lokum var ársgjaldið ákveðið og var niðurstaðan 5 krónur. Lágu þá eigi fleiri mál fyrir fundinum enda tekið mjög að skyggja. Fundi slitið kl. 6 , e.h.

Ekki áttum við peninga til að kaupa fyrir ahöld til íþróttaiðkana, en einhvern veginn tókst að öngla saman fyrir drengjakúlu. Ég man að við fengum Vagn Kristjánsson til að kaupa hana fyrir okkur, en hann var með bíl í forum milli Reykjavíkur og Sauðárkróks. Oft var kúlunni kastað á lóðinni fyrir framan húsið hjá Gísla Blöndal. Var komin stór dæld í blettinn þar sem hún lenti oftast. Ég man, að Lárus, faðir Gísla, stóð oft á tröppunum og fylgdist með tilþrifunum. Hafði hann auðsjáanlega lúmskt gaman að.

En ekki nægði okkur að eiga aðeins kúluna. Okkur vantaði fleiri íþróttaáhöld. Því var ákveðið að halda dansleik í Bifröst til fjáröflunar. Við fengum Björn Gíslason harmonikkuleikara til að spila fyrir dansinum. Talsvert kom af fólki á ballið og man ég, að sumum dansgestunum varð fremur starsýnt á okkur þessa peyja , sem stóðum við dyrnar og rukkuðum aðgangseyrinn. Fyrir ágoðann var keypt kringla, spjót, málband og skeiðklukka. Voru þetta miklir dýrgripir í okkar augum, og hver stund var notuð til æfinga.

 

Eitt atvik er mér afar minnisstætt . Við vorum að æfa úti á Eyri. Óskar bróðir minn var að kasta spjóti, og geigaði kastið hjá honum. Spjótið flaug upp í brekku, þar sem nokkrir drengir voru að leika sér. Skipti það engum togum , að spjótið lenti í handarkrika eins drengsins, Ella Egils, og gekk á hol. Varð að fara með hann á spítala til að gera að sárum hans. Þar munaði ekki miklu að verr færi. Hefði spjótið stungist örlitlu innar hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Þetta atvik hafði mikil áhrif á okkur drengina.

 

Íþróttafélagið Drangey starfaði í um það bil þrjú ár. Það hafði veruleg áhrif , því að mikill íþróttaáhugi kviknaði af starfi þess. Sá áhugi hélst hjá mörgum fram á fullorðinsár.

En það voru ekki einungis drengir úr Ytrikróknum , sem æfðu íþróttir. Strákarnir í Suðurbænum vildu sýna , að þeir væru ekki síður liðtækir í íþróttum en við. Stofnuðu þeir Knattspyrnufélag Sauðárkróks (K.S.)

Fundir voru haldnir nokkuð reglulega, og þá var farið eftir almennum fundarsköpum. Og við gáfum út blað, Íþróttablaðið Drangey, sem lesið var upp úr á fundinum. Þar var nær einungis fjallað um íþróttir. Þetta starf var mjög þroskandi  fyrir okkur og hefur komið að góðu haldi seinna á lífsleiðinni. Vorið 1949 gengum við flestir félagarnir í ungmennafélagið Tindastól.

Þegar Íþróttafélagið Drangey var leyst upp og við gengum félagarnir í Tindastól, bættust ungmennafélaginu ekki aðeins íþróttamenn, heldur félagsvanir drengir, sem höfðu stýrt fomlegu félagi í þrjú ár. Leið ekki á löngu þar til ýmsir þeirra voru kjörnir til trúnaðarstarfa fyrir Tindastól.

Það sem ef til vill er merkilegasta við Íþróttafélagið Drangey er hið mikla starf, sem félagarnir lögðu á sig, t.d. við að merkja og hreinsa íþróttavöllinn, skipuleggja mót, halda uppi reglubundnu félagsstarfi o.s. frv. Og aldrei nutum við aðstoðar fullorðinna í þessum efnum. Við gerðum allt sjálfir, sem gera þurfti. Þegar ég hugsa um þetta núna. Finnst mér þessi félagsstarfsemi í sjálfu sér afrek, því að aldur okkar var ekki ýkja hár. Við vorum sem fyrir segir 9-13 ára. En þetta er glöggt dæmi um það, hvað unglingar geta í rauninni gert merkilega hluti , ef þeir fá sjálfir að njóta sín.

Heimild: Hörður Pálsson

Ungmennafélagið Tindastóll – 1907-1982
Texti: Tindastóll.is

Aðstaða fyrir blaðamenn á Sauðárkróksvelli

Félags- og tómstundarnefnd Skagafjarðar þakkar þann dugnað og sjálfboðaliðsstarf íþróttahreyfingarinnar, sem hér felst í því að byggja og kosta aðstöðu fyrir blaðamenn á Sauðárkróksvelli.

Áður hefur frjálsíþróttadeild Tindastóls byggt tímatökuskýli á vellinum og knattspyrnudeild Tindastóls áhorfendastúku í sjálfboðamennsku. Viðhald þeirra mannvirkja hefur ekki verið íþyngjandi fyrir sveitarsjóð. Starf sjálfboðaliða innan vébanda ungmenna-og íþróttahreyfingarinnar í Skagafirði verður seint fullþakkað.

Söngkeppni Samfés sýnd á tjaldi í Húsi frítímans

Söngkeppni Samfés fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 3. mars kl. 13, en flytja krakkar úr félagsmiðstöðvum vítt og breytt af landinu 30 atriði sem valin hafa verið í undankeppnum um land allt.  Á síðasta ári hlaut atriði Félagsmiðstöðvarinnar Friðar í Skagafirði sérstaka viðurkenningu sem faglegasta atriði, en þá söng Sigvaldi Gunnarsson og lét á gítar ásamt fríðum flokki bakraddasöngkvenna.  Nú munu tvær af þessum bakraddasöngkonum halda uppi heiðri Friðar í keppninni, en það eru þær Bergrún Sóla sem syngur, Sunna Líf sem leikur á píanó og með þeim verður Daníel Logi sem leikur á gítar.  Þau munu flytja lagið Ó elskan mín sem er úr smiðju Guns N Roses, en með íslenskum texta Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar.

Hús frítímans á Sauðárkróki opnar af þessu tilefni kl. 13 á laugardaginn þar sem söngkeppnin verður sýnd á stóru tjaldi og eru sem flestir hvattir til að mæta og fylgjast með sínu fólki.

Árshátíð Léttfeta

Árshátíð hestamannafélagsins Léttfeta verður föstudagskvöldið 2. mars nk. þar sem boðið verður upp á enn eina magnaða skemmtun.
Maturinn sem verður sem fyrr eldaður af félagsmönnum og rennur allur afrakstur til kaupa á eldhústækjum í Tjarnarbæ.
Dulmögnuð skemmtiatriði verða á dagskrá og í veislustjórn var narraður Guðmundur Sveinsson. Geiri og Jói munu svo halda fólkinu í skagfirskri sveiflu fram á nótt.
Einungis 100 miðar eru í boði og stendur forsalan fram til kl. 20:00 þriðjudagskvöld 28. feb hjá Steinunni í síma 865-0945 og Camillu í síma 869-6056.

Miðaverð er hlægilega lágt eða aðeins kr. 4000.
Húsið opnar kl. 19:30 og dagskrá hefst stundvíslega kl. 20:00.

Meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði lagt niður?

Til greina kemur að leggja meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði niður og flytja starfsemina til höfuðborgarinnar. Barnaverndarstofa er nú með málefni heimilisins til skoðunar.

Háholt er eitt þriggja meðferðarheimila úti á landsbyggðinni á vegum Barnaverndarstofu en þar eru vistaðir unglingar á aldrinum 15-18 ára. Á undanförnu ári hafa starfsmenn heimilisins orðið fyrir alvarlegum árásum af hendi unglinganna og brotthlaup verið tíð með tilheyrandi leitarkostnaði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Sauðárkróki er fólk á nærliggjandi bæjum orðið órólegt vegna hinna tíðu stroka og hrætt um sig og eigur sínar.

Barnaverndarstofa hefur nú málefni Háholts til skoðunar en samningur við núverandi rekstraraðila rennur út í sumar. Stofnunin hefur lagt til við Velferðarráðuneytið að opnuð verði ný stofnun í Reykjavík fyrir elstu og erfiðustu unglingana og myndi hún þá hugsanlega leysa Háholt af hólmi.

Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs, segir að þótt margt mæli með því að hafa meðferðarheimili út á landi, þá sé líka margt sem mæli á móti því. Aðallega vegna þeirra hugmynda sem fólk hafi í dag um meðferð, því hún þurfi í auknum mæli að miða út frá félagahópi, fjölskyldu, skóla og atvinnuúrræðum.

Þótt reynt hafi verið að bæta öryggi á Háholti segir Halldór að aldrei verði hægt að koma í veg fyrir að unglingar strjúki af heimilinu enda hafi starfsfólkið ekki valdheimildir til þess að koma í veg fyrir brotthlaup. Þetta sé í rauninni opin eða hálfopin meðferð, sem þýði það að menn geti í rauninni farið með ýmsum ráðum.

Heimild: Rúv.is