Tag Archives: laxasetur íslands

Laxasetur Íslands á Blönduósi opnað

Laxasetur Íslands var opnað á Blönduósi 16.júní . Valgarður Hilmarsson, framkvæmdastjóri setursins, segir að Blönduós sé tilvalinn staður fyrir það, enda er helsta laxveiðiá landsins skammt frá.

Í laxasetrinu eru lifandi laxfiskar í aðalhlutverki. Sýningunni er skipt í þrjá meginkafla; líffræði, sögu og veiðar. Sérstaklega er fjallað um helstu laxfiska, umhverfi þeirra og helstu laxveiðiár. Valgarður segir að markmiðið sé að sýningin höfði til sem flestra, náttúrlega laxveiðimanna, einnig almennra ferðamanna og ekki síst barna.

Blanda er næsta laxveiðiá við Laxasetur Íslands og hún fær að renna gegnum sýninguna, þó einungis sem máluð á. Valgarður á von á fjölda gesta í sumar. Ferðamönnum fjölgi sífellt og vonandi njóti Laxasetrið góðs af því.

Heimild: rúv.is

Laxasetur Íslands á Blönduósi

Á fyrsta degi veiðitímabilsins þann 1. apríl, opnaði Laxasetur Íslands ehf. heimasíðu félagsins. Á síðunni www.laxasetur.is munu koma fram upplýsingar um starfsemi félagsins en nú er verið að setja upp lifandi sýningu laxfiska að Efstubraut 1 á Blönduósi sem verður opnuð í júní n.k.

Á sýningunni verða lifandi laxfiskar í búrum og þá verður einnig kvikmynd um laxfiska og annað efni tengt lifnaðarháttum og sögu laxfiska og veiði á Íslandi í máli og myndum. Stefnt er að því að sýningin verði áhugaverð fyrir veiðimenn og fjölskyldufólk.

Laxasetrið mun koma að ýmsum rannsóknum í samstarfi við Veiðimálastofnun, Háskólann á Hólum, Landssamband veiðifélaga og Þekkingasetur á Blönsuósi. Framkvæmdastjóri og tengiliður er Valgarður Hilmarsson laxasetur@laxasetur.is.

Heimild: Húni.is