Tag Archives: körfubolti

Tindastóll áfram í undanúrslit í körfunni

Tindastóll tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Fyrirtækjabikars karla í körfuknattleik.

Tindastóll hafnaði í efsta sæti C-riðils þrátt fyrir tap gegn Stjörnunni 98-86 í Garðabæ en Stjörnumenn uðru í öðru sæti. Brian Mills og Justin Shouse skoruðu báðir 19 stig fyrir Stjörnuna auk þess sem Mills tók átta fráköst og Shouse 7 fráköst en hjá Tindastól var  George Valentine atkvæðamestur með 25 stig og 11 fráköst.

Körfuboltabúðir Tindastóls byrjaðar

Körfuboltabúðir Tindastóls 2012 hófust í gær og verða fram á sunnudag. Þar munu þjálfarar yngri flokkanna vinna með hópana sína og hefja undirbúning fyrir keppnistímabilið. Rúmlega 90 krakkar eru skráðir í búðirnar.

Míkró- og minniboltakrakkar hófust með æfingu í gær og eftir það komu eldri flokkarnir inn. Síðan verða þrjár æfingar á laugardag og tvær á sunnudag og búðunum lýkur svo formlega um kl. 16 á sunnudag, með pylsugrillveislu.

Foreldrar vinna með starfsmönnum íþróttahússins að mönnun gæslu og umsjónar í húsinu, þann tíma sem engir húsverðir eru við störf og er afar gaman að sjá góðar undirtektir foreldra í þessu verkefni.

Áhugasamir eru hvattir til að láta sjá sig í húsinu um helgina.

Nýr þjálfari til körfuknattleiksdeildar Tindastóls

Oddur Benediktsson, 23 ára Hvergerðingur, hefur verið ráðinn yngriflokkaþjálfari Tindastóls á næsta tímabili. Oddur er ungur og upprennandi þjálfari sem mun verða í miklu starfi hjá körfuknattleiksdeildinni.

Oddur mun verða aðalþjálfari 8. 9. og 10. flokks drengja Tindastóls, sem allir taka þátt í Íslandsmótinu. Honum til aðstoðar verður Karl Jónsson.  Auk þessa mun Oddur þjálfa míkróboltann og einhverja minniboltaflokka hjá Tindastóli.

Með ráðningu Odds verður hægt að nýta betur æfingatíma fyrr á daginn en áður hefur verið og mun það létta á æfingatímum seinni partinn.

Oddur hefur síðustu árin þjálfað á Suðurlandi, hjá Laugdælum, Hrunamönnum og Hamri og hefur smám saman verið að afla sér reynslu og þekkingar og verið duglegur við að sækja námskeið og aðra möguleika á menntun.

Oddur mun hefja störf þann 1. september n.k.

Tindastóll sendir iðkendur í úrvalsbúðir KKÍ

Að venju sendir körfuknattleiksdeild Tindastóls stóran hóp iðkenda í Úrvalsbúðir KKÍ sem haldnar eru tvær helgar á hverju sumri. Eru búðir þessar undanfari yngri landsliðanna og fyrsta stigið í afreksstigi KKÍ.

Alltaf eru þrír árgangar kallaðir til leiks á hverju ári og að þessu sinni eru það iðkendur sem fæddir eru 1999, 2000 og 2001. Æfingarnar verða á höfuðborgasvæðinu 2. – 3. júní og 25. og 26. ágúst.

Þjálfara félagsliða innan KKÍ velja iðkendur í þessar búðir og hér fyrir neðan má sjá listann sem Tindastóll sendir inn þetta sumarið. Valið er ávallt erfitt fyrir þjálfarana því margir eru til kallaðir. Þessar tilnefningar geta tekið breytingum á milli ára og þó einhver sé valinn í ár, er ekki þar með sagt að hann eigi víst sæti á næsta ári.

 • Haraldur Viðar Bjarkason 1999
 • Örvar Pálmi Örvarsson 1999
 • Halldór Broddi Þorsteinsson 1999
 • Jón Grétar Guðmundsson 1999
 • Haukur Sindri Karlsson 1999
 • Dagmar Björg Rúnarsdóttir 1999
 • Hafdís Lind Sigurjónsdóttir 1999
 • Bjarkey Birta Gissurardóttir 1999
 • Andri Snær Ásmundsson 2000
 • Hlynur Örn Þrastarson 2000
 • Gunnar Valur Jónsson 2000
 • Hera Sigrún Ásbjarnardóttir 2000
 • Alexandra Ósk Guðjónsdóttir 2000
 • Áróra Árnadóttir 2000
 • Berglind Ósk Skaptadóttir 2000
 • Sigrún Þóra Karlsdóttir 2000
 • Telma Ösp Einarsdóttir 2000
 • Haukur Steinn Ragnarsson 2001
 • Víkingur Ævar Vignisson 2001
 • Skírnir Már Skaftason 2001
 • Ragnar Ágústsson 2001
 • Anna Sóley Jónsdóttir 2001

Uppskeruhátíð yngri flokka í körfuboltadeild Tindastóls

Unglingaráð Tindastóls heldur uppskeruhátíð fyrir yngri flokkana í körfubolta í íþróttahúsinu þriðjudaginn 8. maí, kl. 16-18.

Á uppskeruhátíðinni verða veittar viðurkenningar fyrir tímabilið í þeim flokkum sem tóku þátt í Íslandsmóti en yngri iðkendur fá sérstakar þátttökuviðurkenningar.

Eitthvað verður gómsætt af grillinu og hvetur unglingaráð alla iðkendur og foreldra til að fjölmenna í íþróttahúsið á Sauðárkróki.

Lokahóf körfuknattleiksdeildar Tindastóls

Lokahóf meistaraflokks Tindastóls í körfubolta var haldið síðasta vetrardag með stæl. Helgi Rafn Viggósson var valinn besti leikmaður keppnistímabilsins af félögum sínum og er hann vel að þeim titli kominn.

Eftir gómsætan mat og vel heppnuð skemmtiatriði var komið að hefðbundnum verðlaunaafhendingum sem ávallt ríkir spenna fyrir.

Verðlaunahafar að þessu sinni urðu eftirtaldir leikmenn:

 

 •  Mestu framfarir: Þröstur Leó Jóhannsson og Hreinn Gunnar Birgisson
 •  Stigahæstur: Helgi Rafn Viggósson
 •  Frákastahæstur: Helgi Rafn Viggósson
 •  Besta ástundun: Hreinn Gunnar Birgisson
 •  Efnilegastur: Pálmi Geir Jónsson
 •  Besti varnarmaður: Helgi Freyr Margeirsson
 •  Besti leikmaður kosinn af leikmönnum: Helgi Rafn Viggósson

Helgi Rafn skoraði 8.9 stig að meðaltali í leik og tók 6 fráköst.

KR lagði Tindastól í fyrsta leik

Úrslitakeppnin í Iceland Express deild karla í körfubolta hófst á fimmtudagskvöld og héldu Tindastólsmenn suður til að mæta KR. Fjölmennum og fríður flokkur stuðningsmanna Tindastóls mættu á leikinn til að hvetja sína menn. KR-ingar höfðu frumkvæðið lengstum í leiknum og lönduðu nokkuð öruggum sigri þó Stólarnir hafi gert góða atlögu að þeim undir lok þriðja leikhluta. Lokatölur 84-68.

Nú er annar leikur liðanna á sunnudag í Síkinu á Sauðárkróki og eru stuðningsmenn Tindastóls hvattir til að fjölmenna og hvetja liðið til sigurs. KR-ingar hafa heimsótt Síkið tvisvar áður í vetur og hafa þeir ekki riðið feitum hesti frá þeim viðureignum. Áfram Tindastóll!

Stig Tindastóls: Allen 16, Miller 13, Þröstur Leó 12, Svabbi 11, Helgi Rafn 9, Tratnik 5 og Hreinsi 2.

Tindastóll vann Njarðvík í körfunni

Tindastólsmenn mörðu baráttuglaða Njarðvíkinga í Síkinu á fimmtudagskvöld en gestirnir þurftu að sigra heimamenn með yfir átta stiga mun til að stela af þeim sjöunda sætinu í Iceland Express deildinni. Njarðvíkingar gerðu ágæta atlögu en þegar upp var staðið höfðu heimamenn betur, Miller tók leikinn í sínar hendur á lokakaflanum og staldraði oft við á vítalínunni. Lokatölur 81-79.

Tindastóll mætir svo KR í úrslitakeppninni.

Góður árangur yngri flokka Tindastóls í körfubolta

Yngri flokkar Tindastóls náðu góðum árangri í síðustu umferð fjölliðamótanna um s.l. helgi. 11. flokkur drengja og 8. flokkur stúlkna unnu B-riðilsmót og 8. flokkur drengja vann tvo og tapaði einum leik í D-riðli.

Breytingar urðu í öllum fjölliðamótum þessara flokka þar sem eitt lið í hverjum flokki mætti ekki til leiks. Er það því miður algengt að félög sendi ekki lið til keppni í síðustu umferðinni, nema að einhverju sérstöku sé að keppa eins og er í A-riðli. Er þetta bagalegt fyrir þau lið sem eru í þessu af alvöru, leikjum fækkar í síðustu umferðinni og leikmenn fá minna út úr mótinu en æskilegt er. Að vísu ber að geta þess að Þórsarar sendu ekki lið til keppni í 8. flokki stúlkna, vegna slæmrar veðurspár, en hugur mun vera hjá þeim til þess að spila sína leiki engu að síður á næstunni.

Valsmenn mættu ekki til leiks í 11. flokki drengja hér á Sauðárkróki. Okkar strákar spiluðu því aðeins þrjá leiki. Töpuðu fyrir Keflavík 44-46, en unnu Hauka 77-65 og Breiðablik 60-45. Þrátt fyrir að tapa þessum eina leik, unnu þeir mótið strákarnir og er þetta í fyrsta skiptið sem þessi aldurshópur sigrar B-riðilsmót sem er afar gleðilegt.

Heimild: Tindastóll.is

Tindastóll átti ekki möguleika gegn KR

KR vann Tindastól örugglega, 84:66, í kvöld en KR var yfir í hálfleik, 39:31, eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik. Síðan skildu fljótlega leiðir og sigur KR var aldrei í hættu í seinni hálfleik. Joshua Brown skoraði 21 stig fyrir KR, Dejan Sencanski 19 og Robert Ferguson 18. Maurice Miller skoraði 23 stig fyrir Tindastól og Curtis Allen 14.

KR – Tindastóll       2:4, 6:4, 12:11, 16:11, 21:15, 23:19, 28:23, 39:31, 41:32, 52:35, 57:38, 63:42, 69:53, 73:53, 75:59, 80:62, 84:66.

Staðan eftir leiki kvöldsins:

34 Grindavík
24 KR
24 Stjarnan
24 Þór Þ.
24 Keflavík
18 Snæfell
18 Tindastóll
18 Njarðvík
14 ÍR
14 Fjölnir
8 Haukar
0 Valur

Tindastóll næstum því bikarmeistarar

Skemmtileg grein frá vef Tindastóls.

Tindastóll tapaði með tveimur stigum í bikarúrslitaleiknum á móti Keflavík eins og væntanlega allir vita enda var ekki Skagfirðingur í heiminum sem var ekki á leiknum eða fylgdist með honum með einhverjum hætti. Þrátt fyrir tapið þá stóðu strákarnir sig með sóma og vöktu athygli langt út fyrir landssteinana fyrir eljusemi og baráttu.

Í stuttu máli spilaðist leikurinn þannig að Keflavík átti þrusugóðan fyrsta leikhluta, enduðu nánast hverju einustu sókn með stigi og náðu góðri 10 stiga forystu eftir að hafa náð að setja 29 stig í leiklutanum. Tindastólsmenn eltu allan leikinn og náðu stundum að minnka forskotið niður fyrir 10 stigin en þá fylgdi alltaf þristur eða þristar frá Keflvíkingum þannig að forskotið hélst í 10 stiginum nánast allan leikinn.

Í lokin reyndu Stólarnir allt hvað þeir gátu til að jafna leikinn og náðu muninum mest niður í 3 stig þegar 14 sekúndur voru eftir en það var of lítið eftir að klukkunni og Keflvíkingar enduðu sem sigurvegarar þrátt fyrir ævintýralega lokakörfu frá Þresti í lokin. Líklega ekkert alltof ósanngjarnt þar sem Keflvíkingar spiluðu ansi vel en mikið ofboðslega vorum við nálægt.

Ef sniðskotið hans Mo hefði dottið ofan í í næst síðustu sókninni, tvo eða þrjú þriggja stiga skot sem duttu ekki niður á síðustu mínútunum, Keflvíkingar hefðu ekki fengið stig á töfluna fyrir að klúðra troðslu eða hreinlega bara öll vítin sem Keflvíkingar settu niður. Keflvíkingar klúðruðu bara tveimur vítum allan leikinn sem segir kannski mikið um hversu vel þeir voru stemmdir í þessum leik.

En frábær skemmtun, mikil forréttindi að fá að taka þátt í bikarúrslitaleik og einhverstaðar heyrði ég að íþróttafréttamennirnir sem voru að lýsa leiknum hefðu aldrei orðið vitni að annari eins stemningu á bikarúrslitaleik enda var höllin troðfull og stuðningsmenn Tindastóls áttu stúkuna. Þarf ekkert að deila um það.

En allt í allt, allir leikmenn og stuðningsmenn eiga að ganga stoltir af þessum leik og vonandi mætum við aftur þarna að ári og klárum þetta dæmi.

Heimild: Tindastóll.is

Keflavík – Tindastóll – bein textalýsing

KKÍ bíður upp á beina textalýsingu á netinu frá bikarúrslitaleiknum,  hægt er að fylgjast með stigaskori og öðrum upplýsingum.

Staðan var 29-18 fyrir Keflavík eftir fyrsta leikhluta en staðan var jöfn 11-11 en þá fór Keflavík að skríða framúr.

Staðan er 52-41 í leikhlé og Keflavík leiðir leikinn ennþá. Hvort liðið hefur skorað 23 stig í öðrum leikhluta, en forysta Keflavíkur úr fyrsta leikhluta stendur enn. Parker hefur gert 17 stig fyrir Keflavík og Miller 11 stig fyrir Tindastól í fyrri hálfleik.

Staðan eftir þriðja leikhluta er 76-66 fyrir Keflavík.

Sjá tengilinn hér.

Sætaferðir á bikarúrslitin

Vegna leiks Tindastóls og Keflavíkur í bikarúrslitum um næstu helgi verður boðið upp á sætaferð á leikinn.  Skráning og nánari upplýsingar í síma 825 4417 hjá Jóni Inga, en verðið er aðeins 1000 krónur.

Þá býður Arctic Comfort Hotel upp á tilboð á gistingu fyrir þá sem vilja dvelja lengur í borginni. Ein nótt í tveggja manna herbergi m/morgunverði á krónur 7.990,- og tvær nætur m/morgunverði á krónur 13.000,-  Sjá nánar hér.

Hótel Arctic Comfort Hotel er staðsett í Síðumúla 19, sem er í göngufæri frá Laugardalshöllinni.

Miðar á leikinn fást á www.midi.is

 

Heimild: Tindastóll.is

Tindastóll vann ÍR í körfunni

Tindastóll hitaði upp fyrir bikarúrslitaleikinn á móti Keflavík um næstu helgi með því að vinna fjögurra stiga sigur á ÍR, 96-92, í spennandi leik í Seljaskóla í Reykjavík í Iceland Express deild karla í kvöld. Tindastóll komst upp í áttunda sætið með þessum sigri.

Tindastóll og ÍR voru bæði búin að tapa þremur leikjum í röð en Stólarnir voru sterkari á lokamínútunum í kvöld en þeir tryggðu sér sigur með því að skora tíu síðustu stig leiksins.

ÍR-Tindastóll 92-96 (28-27, 14-19, 23-26, 27-24)

ÍR: Nemanja Sovic 24/8 fráköst, Robert Jarvis 19/6 fráköst, Hjalti Friðriksson 19/5 fráköst, Eiríkur Önundarson 16/5 fráköst, Ellert Arnarson 5/6 stoðsendingar, Þorvaldur Hauksson 5, Kristinn Jónasson 2, Níels Dungal 2.

Tindastóll: Maurice Miller 22/8 fráköst/7 stoðsendingar, Curtis Allen 18/6 fráköst, Igor Tratnik 17/15 fráköst/3 varin skot, Svavar Atli Birgisson 11, Helgi Rafn Viggósson 11/5 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 6, Friðrik Hreinsson 4, Helgi Freyr Margeirsson 4, Hreinn Gunnar Birgisson 3.

Grindavík vann Tindastól

Bárður Eyþórsson þjálfari Tindastóls var ekki óhress með sína menn þrátt fyrir ósigur  gegn Grindvíkingum á heimavelli, 96:105, í úrvalsdeildinni í körfubolta í gærkvöld.

„Þetta var bara erfiður leikur. Við vorum lengst af ekki nægilega góðir í vörninni, en þeir eru bara einfaldlega góðir. Hinsvegar gáfumst við aldrei upp og það er góður karakter í liðinu að koma til baka og vinna sig aftur inn í leikinn eftir að hafa verið svona mikið undir, og ég er ekkert svo ósáttur,” sagði Bárður.

Heimild: mbl.is

Tindastóll fær nýjan leikmann í körfunni

Igor Tratnik, slóvenski körfuboltamaðurinn sem hefur spilað með Valsmönnum í úrvalsdeildinni í vetur, hefur fengið sig lausan undan samningi og er búinn að semja við Tindastól um að spila með þeim út tímabilið.

Tratnik, sem er 22 ára og 2,06 m á hæð, hefur verið í stóru hlutverki í Valsliðinu í vetur en þar hefur hann skorað 15 stig og tekið 10 fráköst að meðaltali í leik. Hann spilaði m.a. áður með KFÍ í 1. deildinni.  Myles Luttman sendur heim frá Tindastólsliðinu í stað Igor Tratnik.