Tag Archives: hvammstangi

Heitt vatn tekið af Hvammstanga, Laugarbakka, Miðfirði og Víðidal mánudaginn 13. júlí

Loka þarf fyrir heita vatnið á Hvammstanga, Laugarbakka, Miðfirði og Víðidal mánudaginn 13. júlí. Lokað verður um kl. 15 og mun vera lokað í nokkrar klukkustundir. Það getur tekið fram eftir kvöldi að koma vatni á alls staðar.

Verið er skipta um dælu í borholu og gera breytingar í dælustöð á Laugarbakka.

Þjónusturof hitaveitu – ábending til húsráðenda

  1. Hafa þarf í huga að loft getur komist á kerfið þegar vatni er hleypt á að nýju með viðeigandi óhljóðum.
  2. Húsráðendum er bent á að við viðgerðir kunna óhreinindi að fara af stað í lögnum þegar vatni er hleypt á. Því er nauðsynlegt að skola kerfið vel út með því að láta vatn renna um stund. Best er að útskolun fari fram sem næst inntaksstað sé þess kostur.
  3. Sé húsráðandi í vafa um hvernig bregðast á við skal undantekningalaust haft samband við pípulagningameistara.

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þessu kann að fylgja.

Dreifinám á Hvammstanga

Unglingar á Hvammstanga sjá nú fram á að geta búið lengur heima hjá foreldrum sínum. Unnið er að því að opna framhaldsskóladeild í þorpinu þar sem kennt yrði í gegnum fjarfundarbúnað frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

Til þessa hafa unglingar á svæðinu ekki átt annan kost en að flytja að heiman 16 ára hyggi þau á framhaldsskólanám. Margir fara til Sauðárkróks, aðrir til Akureyrar og enn aðrir suður, oft eftir því hvar fólk á ættmenni til að búa hjá. Nú vonast íbúar á Hvammstanga og í sveitunum í kring, til þess að geta haldið lengur í unglingana sína því unnið er að því að setja upp svokallað dreifnám á Hvammstanga

„Útgangspunkturinn á dreifnáminu er að auka möguleika til menntunar í heimabyggð,“ segir Eydís Aðalbjörnsdóttir, fræðslu- og félagsmálastjóri í Húnaþingi vestra. „Það var strax árið 2004 sem sveitarfélagið tók frumkvæði að því að opna fjarnámsstofu hér og núna eru tekin um 100 próf í fjarnámi bæði á framhalds- og háskólastigi þannig að næsta skref var eiginlega að opna framhaldsskóladeild.“

Kennt yrði í gegnum fjarfundarbúnað í félagsheimilinu á Hvammstanga. Af þessu verður þó ekki nema þátttakan verði næg. Unglingar á staðnum hafa fengið að taka þátt í undirbúningsvinnunni og eru flest jákvæð fyrir dreifnáminu þó mörgum þyki líka spennandi að flytja í burt og fara á heimavist.

Sumarstörf í Húnaþingi vestra

Flokkstjórar í Vinnuskóla
Í starfinu felst skipulagning og stýring á vinnuhópum unglinga á aldrinum 13 til 16 ára við ýmis garðyrkjustörf o.fl. einnig leiðsögn, hópefli og hvatning til góðra verka. Hæfniskröfur: Æskilegur aldur 20 ár eða eldri, menntun og reynsla í störfum tengdum ungu fólki.
Mikilvægt er að umsækjendur séu stundvísir, samviskusamir og góðar fyrirmyndir unglingana. Hafi góða þjónustulund og hæfni í mannlegum samskiptum. Áhugi af garðyrkjustörfum nauðsynlegur.

Flokkstjóri við slátt
Flokkstjóri ber ábyrgð á sláttuhóp og stýrir á verkstað, gerir vinnuskýrslur fyrir hópinn og hefur umsjón með vélum og búnaði sláttuhóps. Hæfniskröfur: umsækjendur skulu vera 20 ára eða eldri og bílprófs er  krafist. Flokkstjóri skal vera stundvís, jákvæður, lipur og eiga auðvelt með að vinna með öðru fólki. starfsreynsla af garðyrkjustörfum nauðsynleg.

Daglegur vinnutími er virka daga frá kl. 8:00-17:00.

Grassláttur og almenn garðyrkjustörf.
Umsækjendur sjái um grasslátt á opnum svæðum sveitarfélagsins og sinni almennum garðyrkjustörfum einnig. Umsækjendur skulu vera 17 ára eða eldri.
Krafist er stundvísi, ástundar og dugnaðar.

Daglegur vinnutími er virka daga frá kl. 08:15-16:15.

Frekari upplýsingar veitir Ína Björk Ársælsdóttir Umhverfisstjóri í síma: 455-2400.

Almenn verkamannastörf í Áhaldahúsi
Meðal starfa eru  ýmis viðhaldsverkefni á vegum sveitarfélagsins, s.s veitur og fl. Reynsla og hæfniskröfur: Umsækjendur skulu vera fæddir 1994 eða fyrr og nauðsynlegt er að þeir hafi bílpróf og dráttarvélapróf, reynsla af sambærilegu starfi er kostur, Samviskusemi og stundvísi.

Daglegur vinnutími er virka daga frá kl. 08:00-17:00.

Frekari upplýsingar veitir Guðmundur Erlendsson verkstjóri í síma: 894-2909.

Skriflegri umsókn skal skilað á skrifstofu Húnaþings vestra fyrir 15. apríl næstkomandi. Íumsókninni þarf að koma fram; Almennar upplýsingar, menntun, fyrri störf og annað sem umsækjandi telur viðeigandi. Frekari upplýsingar og upplýsingar um launakjör eru veittar á skrifstofu Húnaþings vestra í síma 455-2400