Tag Archives: hólar

Háskólinn á Hólum hlaut styrk frá Rannsóknarsjóði Bandaríkjanna

Háskólinn á Hólum (HH) og University of Massachusetts í Boston (UMass Boston) hafa hlotið styrk að upphæð $297.000 eða um 40 milljónir ISK frá Rannsóknarsjóði Bandaríkjanna (National Science Foundation) til að rannsaka elstu byggð og byggðaþróun í Hjaltadal. Guðný Zoëga (Ferðamáladeild HH) og John Steinberg (Fiske Center for Archaeological Research, UMass Boston) stýra verkefninu, sem er sjálfstætt framhald fyrri rannsókna þeirra á landnámi, kirkjusögu og búsetuþróun í Hegranesi og á Langholti í Skagafirði. Þetta er í þriðja sinn sem þau hljóta styrk frá sjóðnum til sameiginlegra rannsókna.
Styrkurinn er til þriggja ára og munu bæði íslenskir og bandarískir sérfræðingar og nemar koma að rannsókninni, sem er mikilvæg fyrir sögu byggðaþróunar í Hjaltadal og til viðbótar og samanburðar við fyrirliggjandi þekkingu á búsetumunstri á fyrstu öldum byggðar í Skagafirði. Um er að ræða mikilvægan grunn til frekari rannsókna og heildstæðrar kynningar auk miðlunar upplýsinga á Hólastað og getur skapað mikilvægan grundvöll fyrir frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu í Skagafirði og víðar.
Ísland býður upp á einstaka möguleika í að rannsaka hvernig óbyggt land var numið og hvernig byggð þróaðist, bæði félagslega og efnahagslega. Rannsóknir á Langholti og í Hegranesi sýndu mismunandi form landnáms, annarsvegar stórar einingar í fyrstu sem síðar var skipt upp og hins vegar smærri einingar sem lögðust af fremur snemma. Hegranesrannsóknir benda til að heimiliskirkjur og kirkjugarðar hafði verið á nánast hverjum bæ á 11. öld, sem flestir hurfu úr notkun um sama leyti og biskupssetur var stofnað á Hólum. Í Hjaltadal eru einstakir möguleikar til að kanna hvernig uppbygging valdamiðstöðvar, eins og á Hólum, hafði áhrif á nærumhverfið, bæði varðandi stærð jarða og nýtingu lands.
Hólarannsóknin sem fram fór á Hólastað og í Kolkuósi fyrr á þessari öld sýndu m.a. margháttuð tengsl við útlönd og ríkulegan innflutning. Hjaltadalsrannsóknin snýr hinsvegar að svæðisbundnum þáttum, s.s. hvenær Hólar byggðust, hver stærð jarðarinnar var í upphafi og hvort greina megi breytingar á stærð og búsetu á Hólum og nágrannajörðunum eftir því sem staðurinn styrktist sem valdamiðstöð. Rannsóknin mun fara fram í formi víðtækrar borkjarnatöku, sem gerir það kleift að skilgreina aldur og stærð jarða og grafnir verða könnunarskurðir í öskuhauga, mögulega kirkjugarða og aðra útvalda staði til að skilgreina gerð, efnahag og aldur byggðar.
Hluti rannsóknarinnar er sagnfræðileg úttekt á elstu heimildum um efnahag og landnýtingu Hólastaðar og munu sérfræðingar Ferðamáladeildar, þær Sigríður Sigurðardóttir og Anna Guðrún Þórhallsdóttir, sjá um þann þátt.

Litla kjötbolluhátíðin haldin á Hólum

Öflugt starf er unnið við Háskólann á Hólum í Hjaltadal en í sumar sækir töluverður fjöldi fólks sumarnám við háskólann sem er í boði sökum COVID19 vírusins sem herjað hefur á heimsbyggðina.  Áfanginn Matur og menning er meðal áfanga sem eru kenndir og er hluti áfangans að halda matartengdan viðburð. Niðurstaða nemanda í hópnum var að útbúa ódýran og góðan skyndibita úr íslensku hráefni og auglýsa réttinn með uppákomu.  Úr varð réttur þar sem aðal hráefnið eru bollur úr folaldakjöti ásamt byggi, karöflumús og öðru meðlæti og hefur þess nýji og holli skyndibiti fengið nafnið Follubollur.

Gestum og gangandi gefst hið einstaka tækifæri á að smakka þennan nýja og spennandi skyndibita er hann verður kynntur á Litlu kjötbolluhátíðinni 7. júlí á Hólum í Hjaltadal en nánari upplýsingar er að finna á fésbókarsíðu Litlu kjötbolluhátíðarinnar.”

Mynd frá Daníel Pétur Daníelsson.

Laus staða sérfræðings á Selasetri og að Hólum

Vilt þú móta ferðamálafræði til framtíðar?

 

Í stöðu sérfræðings við Selasetur Íslands og Háskólann á Hólum er tækifæri til þess.  Við ferðamáladeild Háskólans á Hólum er lögð stund á rannsóknir og boðið háskólanám í ferðamálafræði og viðburðastjórnun.

Meginmarkmið Selaseturs Íslands er að efla náttúrutengda ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra, vinna að eflingu selaskoðunar á svæðinu og standa fyrir fjölbreyttum rannsóknum, fræðslu og upplýsingamiðlun um seli við Ísland.

Starfsaðstaða í Selasetri Íslands á Hvammstanga og í háskólaþorpinu á Hólum er góð, fjölskylduvæn samfélög og falleg náttúra. Sjá nánar á www.selasetur.is og www.holar.is.

Í starfinu felst
• kennsla og rannsóknir
• þátttaka í uppbyggingu náttúru- og menningartengdrar ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra
• þátttaka í stefnumótun og fjármögnun verkefna Selaseturs Íslands og Háskólans á Hólum í nánu samstarfi við starfsmenn stofnananna

Við leitum að einstaklingi með
• doktorspróf á sviði ferðamálafræða eða tengdra fræðasviða
• góða þekkingu á sviði náttúrutengdrar ferðaþjónustu og/eða byggðaþróunar
• reynslu af stjórnun, rannsóknum, kennslu og þróunarstarfi
• leiðtogahæfileika, ábyrgð, frumkvæði og hæfni í mannlegum samskiptum

Laun eru samkvæmt samningum ríkisins við viðkomandi stéttarfélag.

Umsækjandi þarf að geta hafið störf 1. janúar 2013 og er krafist búsetu á Hvammstanga. Umsóknir, ásamt afritum af prófskírteinum, ferilskrá og nöfnum tveggja meðmælenda, berist fyrir 15. október 2012 til Sigurbjargar B. Ólafsdóttur mannauðsstjóra, Háskólanum á Hólum, 551 Sauðárkróki, eða á netfangið sigurbjorg@holar.is.

Nánari upplýsingar veitir Guðrún Helgadóttir deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum, sími 4556300, eða Vignir Skúlason framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands, sími 451 2345.

 

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Heimild: www.holar.is

Solveig Lára vígð inn í dag á Hólum

Solveig Lára Guðmundsdóttir verður í dag vígð til embættis vígslubiskups á Hólum. Hún er önnur konan sem tekur biskupsvígslu á Íslandi. Agnes Sigurðardóttir, biskup vígir Solveigu Láru.

Vígsluvottar eru Aðalsteinn Baldvinsson biskup á Hólum, Kristján Valur Ingólfsson biskup í Skálholt sex erlendir  biskupa,  Gylfi Jónsson fv. héraðsprests, eiginmaður Solveigar Láru  og Unnur Halldórsdóttir, djákni.
Athöfnin hefst með göngu presta stiftisins, biskupa og vígsluþega til kirkju. Solveig Lára var sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal í 12 ár en áður þjónaði hún sem sóknarprestur á Seltjarnarnesi í 14 ár. Hún var fyrsta konan sem kjörin var sóknarprestur í almennri prestskosningu á höfuðborgarsvæðinu.

Heimild: Rúv.is

Reiðnámskeið Háskólans á Hólum

Reiðkennarabraut Háskólans á Hólum heldur reiðnámskeið fyrir hinn almenna hestamann (16 ára og eldri), dagana 22. – 25. mars.

Lögð verður áhersla á ásetu og stjórnun, samspil knapa og hests og að bæta jafnvægi á gangtegundum. Nemandi verður að mæta með taminn hest og búnað.

Hægt er að fá stíu og fóður fyrir hestinn meðan á námskeiðinu stendur og er verð þá 1000 kr. sólarhringurinn á hest.

Annars er kennsla nemendum að kostnaðarlausu.

Hægt verður að kaupa hádegismat á staðnum um helgina.

Dagskrá:

22. mars, fimmtudagur: kl 17:00 – 21:00
23. mars, föstudagur: kl 17:00 – 21:00
24. mars, laugardagur: kl 9:00 – 17:00
25. mars, sunnudagur: kl 9:00 – 16:00

Skráning fyrir 18. mars, hér

Nánari upplýsingar veita:
Anna Rebecka – 856-5882
Bergþóra – 895-7906