Tag Archives: hólar í hjaltadal

Bjórhátíð á Hólum í Hjaltadal

Bjórhátíðin á Hólum verður haldin annað árið í röð að Hólum í Hjaltadal. Hátíðin fer fram laugardaginn 8. september og stendur yfir frá 15:00 til 19:00. Helstu bjórframleiðendur landsins mæta á svæðið og kynna fjölbreytt úrval gæðabjóra. Kosið verður um besta bjórinn og keppt í kútaralli. Bjórhátíðin er haldin að undirlagi Bjórseturs Íslands sem staðsett er á Hólum og er rekið af hópi áhugamanna um bætta bjórmenningu landsmanna.

Solveig Lára vígð inn í dag á Hólum

Solveig Lára Guðmundsdóttir verður í dag vígð til embættis vígslubiskups á Hólum. Hún er önnur konan sem tekur biskupsvígslu á Íslandi. Agnes Sigurðardóttir, biskup vígir Solveigu Láru.

Vígsluvottar eru Aðalsteinn Baldvinsson biskup á Hólum, Kristján Valur Ingólfsson biskup í Skálholt sex erlendir  biskupa,  Gylfi Jónsson fv. héraðsprests, eiginmaður Solveigar Láru  og Unnur Halldórsdóttir, djákni.
Athöfnin hefst með göngu presta stiftisins, biskupa og vígsluþega til kirkju. Solveig Lára var sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal í 12 ár en áður þjónaði hún sem sóknarprestur á Seltjarnarnesi í 14 ár. Hún var fyrsta konan sem kjörin var sóknarprestur í almennri prestskosningu á höfuðborgarsvæðinu.

Heimild: Rúv.is

Solveig Lára nýr vígslubiskup að Hólum

Solveig Lára Guðmundsdóttir, sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal var valin í embætti vígslubiskups á Hólum. Atkvæði voru talin í dag í síðari umferð kosninga. Kosið var á milli hennar og Kristjáns Björnssonar, sóknarprests í Vestmannaeyjaprestakalli. Solveig Lára fékk 96 atkvæði og Kristján 70

Nýr vígslubiskup að Hólum verður vígður á Hólahátíð í ágúst og tekur við embætti 1. september.

Messa í Hóladómkirkju alla sunnudaga í sumar

Nú er komið að sumardagskrá á Hólastað.   Messað verður kl 11 alla sunnudaga í sumar frá 10. júní.

Frá 1. júní til 10. september verður kirkjan opin daglega frá kl 10 -18.  Stuttar kvöldbænir eru alla daga nema sunnudaga kl 18-18:15, auk annarra helgistunda vegna sérstakra atburða sem auglýstar verða sérstaklega.

17. júní hefjast svo sumartónleikarnir sem verða kl 14 á sunnudögum. Það er harmónikkusnillingurinn Jón Þorsteinn Reynisson sem ríður á vaðið á þjóðhátíðardaginn.  Aðrir tónleikar verða einnig haldnir í tengslum við hátíðir sumarsins. Ókeypis aðgangur er að öllum tónleikunum.

Barokkhátíð á Hólum 2012

Fjórða barokkhátíð Barokksmiðju Hólastiftis haldin á Hólum 21.-24. júní 2012.

Áætluð dagskrá

Dagana 18.-20. júní  heldur Hildigunnur Halldórsdóttir fiðluleikari námskeið á Akureyri. Á námskeiðinu verður farið yfir ýmis atriði í flutningi barokktónlistar. Námskeiðið er einkum hugsað fyrir strengjaleikara en er þó öllum opið.

21. júní, fimmtudagur

 • 10.00-12.00 Þátttakendur drífur að úr öllum áttum. Tækifæri til að hittast og skipuleggja starfið næstu daga.
 • 12.00-12.30 Hádegisverður
 • 12.30-13.15 Hádegistónleikar – umsjón: Vilhjálmur Ingi Sigurðarson
 • 13.30 og fram eftir degi: Söngnámskeið Jóns Þorsteinssonar (staðsetning óákveðin)
 • 13.30 – 15.00 Dansnámskeið – umsjón: Ingibjörg Björnsdóttir
 • 15.00-15.30 Síðdegishressing
 • 15.30 – 16.30 Fyrirlestur – umsjón: Vilhjálmur Ingi Sigurðarson
 • 16.30-18.00 Æfingar
 • 18.30 Kvöldverður
 • 20.00 Tónleikar eða annar viðburður.
 • 21.00 Gengið upp í Gvendarskál þar sem blásið verður í lúðra og jafnvel leikið á fleiri hljóðfæri. Ef ekki viðrar til göngunnar verður henni frestað þar til seint á föstudagskvöld.

 

24. júní, föstudagur

 • 9.00 Morgunleikfimi í umsjón Ingibjargar Björnsdóttur
 • 9.30-12.00 Söngnámskeið Jóns Þorsteinssonar. Hljóðfæraleikurum gefst tækifæri til æfinga. Hvort tveggja, söngnámskeið og æfingar, er opið fyrir öllum sem vilja fylgjast með.
 • 11.00-12.00 Dansnámskeið – Dansnámskeið Ingibjargar Björnsdóttur heldur áfram.
 • 12.00-12.30 Hádegishressing
 • 12.30-13.15 Hádegistónleikar – Umsjón: Eyþór Ingi Jónsson, Lára Sóley Jóhannsdóttir og Sigurður Halldórsson
 • 13.30-15.00 Dansnámskeið – Ingibjörg Björnsdóttir kennir
 • 14.00-15.00 Söngnámskeið Jóns heldur áfram.
 • 15.00-15.30 Síðdegishressing
 • 15.30-16.30 Tónleikar í umsjón Sigurðar Halldórssonar og Japps Schröders
 • 16.45-18.00 Söngnámskeið Jóns heldur áfarm. Tími til ýmissa æfinga (hljómsveit, söngvarar, dansfólk)
 • 18.30 Kvöldverður
 • 20.00     Söngvaka í Auðunarstofu. Dreift verður söngverkum sem æfð verða á staðnum og söngfólk á hátíðinni, t.d. söngnemar Jóns Þorsteinssonar, getur komið fram að vild.

 

25. júní, laugardagur

 • 9.00 Morgunleikfimi í umsjón Ingibjargar Björnsdóttur
 • 9.30-11.00 Dansnámskeið – Ingibjörg Björnsdóttir kennir
 • 11.00-12.00 Æfingar
 • 12.00-12.30 Hádegishressing
 • 12.30-13.15 Hádegistónleikar í Auðunarstofu. Nemendur af námskeiði Hildigunnar Halldórsdóttur leika
 • 13.30-14.30 Dansnámskeið. – Ingibjörg Björnsdóttir kennir
 • 14.30-15.30 Erindi. Umsjón: Petri Arvo
 • 15.00-15.30 Síðdegishressing
 • 15.30-16.45 Hljómsveit hátíðarinnar æfir með dönsurum.
 • 17.00-18.30 Tónleikar: Q Consort.
 • 18.30 Barokkkvöldverður í sal Hólaskóla. Óskað er eftir að þátttakendur á hátíðinni troði upp með ýmis atriði, gamanmál, tónlist, leiklist, ræður eða annað skemmtilegt. Loks verður slegið upp barokkballi með undirleik hljómsveitar hátíðarinnar.

 

26. júní, sunnudagur

 • 11.00 Barokkmessa í Hóladómkirkju
 • 12.30 Hádegishressing.
 • 14.00 Lokatónleikar Barokkhátíðar 2010. Hljómsveit hátíðarinnar leikur og einnig koma fram smærri hópar og sólóistar.

Menningarstyrkir til Háskólans á Hólum og tengdra aðila

Menningarráð Norðurlands vestra úthlutaði nýlega verkefnastyrkjum fyrir árið 2012. Háskólinn  á Hólum eða aðilar tengdir honum eru skrifaðir fyrir nokkrum þessara verkefna:

Guðbrandsstofnun – kr. 400.000 vegna Sumartónleika á Hólum 2012.
Sögusetur íslenska hestsins – kr. 250.000, m.a. til þátttöku í Íslenska hestatorginu á Landsmóti 2012.
Barokksmiðja Hólastiftis – kr. 250.000 til Barokkhátíðar á Hólum 2012.
Fornverkaskólinn – kr. 250.000 vegna alþjóðlegs torfhleðslunámskeiðs
Ferðaþjónustan á Hólum – kr. 100.000 í gönguferðirnar Í fótspor Guðmundar góða.

Kristján Björnsson býður sig fram til vígslubiskups á Hólum

Tilkynning frá Kristjáni er svo hjóðandi:

Ég býð mig fram til vígslubiskups á Hólum vegna þess að ég hef áhuga á að vinna með öllu því góða fólki sem starfar í kirkjunni í umdæminu. Ég legg áherslu á stuðning vígslubiskups við þjónustu kirkjunnar og boðun hennar á hverjum stað, gott samfélag og trúmennsku.

Ég vígðist í Hóladómkirkju 1989 og þjónaði í Vestur Húnavatnssýslu fyrstu níu árin, en hef verið sóknarprestur í Vestmannaeyjum frá 1998. Það er von mín að reynslan af prestsþjónustunni og ýmsum trúnaðarstörfum í þágu kirkjunnar geti nýst vel í embætti vígslubiskups.

Það virkar vel á mig að embætti biskupanna eru í deiglu innan kirkjunnar og það þarf að taka stöðu þeirra og hlutverk til umræðu.

Eiginkona mín er Guðrún Helga Bjarnadóttir, leikskólakennari og leiðbeinandi hjá Blátt áfram.