Tag Archives: fótbolti

Fótboltamót á Akureyri

Akureyri er mikill íþróttabær og fjöldi íþróttamóta er haldinn í bænum allt árið um kring. Um helgina fara fram tvö af stærstu mótum ársins; N1-mót KA og Pollamót Þórs og Icelandair. N1-mót KA hófst á miðvikudaginn og lýkur með lokahófi í KA-heimilinu á morgun, laugardag. Frá fyrsta mótsdegi hefur verið mikið fjör á svæðinu og óhætt að segja að veðurguðirnir hafi leikið við mótsgesti.

Í ár taka þátt 152 lið frá 38 félögum og er fjöldi keppenda um 1.350 auk þjálfara, fararstjóra, foreldra og annarra aðstandenda. Í það heila eru spilaðir á sjötta hundrað leikir á KA-svæðinu um helgina. Á mótinu er spilað í sex deildum og verða undanúrslitaleikir spilaðir síðdegis í dag en leikir um sæti spilaðir á morgun. N1-mótið er haldið með samstilltu átaki gríðarlegs fjölda sjálfboðaliða og knattspyrnuiðkenda hjá KA og er talið að um 300 sjálfboðaliðar komi að framkvæmd mótsins.

Pollamót Þórs og Icelandair, fyrir eldri knattspyrnupilta- og stúlkur, verður haldið í 25. skipti á Þórssvæðinu um helgina. Mikið verður um dýrðir á mótssvæðinu við Hamar og boðið upp á grillveislur gegn vægu gjaldi í kvöld og annað kvöld auk þess sem Jónsi í Svörtum fötum og Ingó veðurguð munu stíga á stokk og skemmta gestum og gangandi. Einnig mun Kristján Kristjánsson, listflugmaður, sýna ævintýralegar listir sínar yfir Þórsvellinum. Um sannkallaða fjölskyldustemningu er að ræða á mótinu og verður boðið upp á leiktæki fyrir börn á öllum aldri alla helgina.

Keppt verður í tveimur flokkum kvenna: 20 ára og eldri etja kappi í Skvísudeild og 30 ára og eldri í Ljónynjudeild. Karlaflokkarnir eru þrír: 30 ára og eldri taka þátt í Polladeild, 40 ára og eldri í Lávarðadeild og 45 ára og eldri reyna með sér í Öldungadeild.

Mörg lið hafa skráð nafn sitt í sögubækur mótsins með frækinni frammistöðu innan vallar sem utan og ber þar helst að nefna hið víðfræga lið Ginola. Að sögn Rúnars Þórs Jónssonar, fyrirliða Ginola, hafa liðssmenn verið að týnast í bæinn á síðustu dögum einn af öðrum. “Mikil tilhlökkun ríkir í okkar herbúðum enda hefur undirbúningur staðið yfir í nokkurn tíma. Pollamótið er orðið stór hluti af sumarfríi liðsmanna Ginola enda eru margir brottfluttir Akureyringar í liðinu. Það er því frábær tilfinning að koma til Akureyrar um hásumar til þess að spila fótbolta með félögunum. Án nokkurs vafa munum við skemmta okkur og andstæðingum okkar með skemmtilegum leik,” segir Rúnar og hlær.

Pollamót Þórs á Akureyri í júlí

Pollamót Þórs og Icelandair, fyrir eldri knattspyrnupilta- og stúlkur, verður haldið í 25. skipti á Þórssvæðinu á Akureyri 6. og 7. júlí næstkomandi. Mikið verður um dýrðir og flott skemmtiatriði á mótssvæðinu við Hamar bæði að kvöldi föstudags og laugardags í tilefni afmælisins, og 150 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar. Leikið er á föstudag og laugardag.

Stefnt er að því að mótið verði sannkölluð fjölskylduhátíð, leiktæki verða á svæðinu fyrir börn allan tímann og á föstudagskvöldið verður grillveisla þar sem hægt verður að kaupa veitingar gegn vægu gjaldi. Jónsi, söngvari hljómsveitarinnar Í svörtum fötum, treður m.a. upp á föstudagskvöldið og við verðlaunaafhendingu á laugardagskvöldinu verður Ingó Veðurguð með tónleika. Þá verður einnig grillveisla við Hamar.

Ókeypis tjaldstæði eru í boði á svæðinu fyrir þátttakendur og fjölskyldur þeirra. Keppt er í tveimur flokkum kvenna: 20 ára og eldri etja kappi í Skvísudeild og 30 ára og eldri í Ljónynjudeild. Karlaflokkarnir eru þrír: 30 ára og eldri taka þátt í Polladeild, 40 ára og eldri í Lávarðadeild og 45 ára og eldri reyna með sér í Öldungadeild

Heimild: vikudagur.is

Smábæjarleikarnir á Blönduósi

Smábæjarleikarnir fara fram á Blönduósi helgina 23 – 24 júní. Þetta er tveggja daga mót í sjö manna fótbolta þar sem keppt er á laugardegi og sunnudegi. Mótið er ætlað, 4 – 6 flokki. drengja og stúlkna og í 7. flokki er keppt í blönduðum liðum. Það er nóg að vera komin á mótsstað á milli 07:00 og 09:00 á laugardeginum en þá er móttaka liða. Þeir sem vilja fara á föstudeginum geta það einnig en móttaka liða er frá klukkan 18:00 – 22:00 þann dag.

Bjarki Már verður ekki með Tindastóli næsta sumar

Bjarki Már Árnason hefur skipt yfir í lið KF, Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.

Bjarki hefur verið lykilmaður hjá Tindastóli undanfarin ár en hann var í liði ársins í annarri deildinni síðastliðið sumar sem og árið 2009. Einnig þjálfaði hann kvennalið Tindastóls árin 2010-2011. Hann er fæddur árið 1978 og hefur leikið 167 leiki fyrir meistaraflokk og skorað 21 mark. Hann hefur meðal annars leikið í Noregi og fyrir Keflavík.

Þessi 33 ára gamli varnarjaxl hefur ákveðið að breyta til og æfði meðal annars með Magna Grenivík og lék fyrir þá á Norðurlandsmótinu nú fyrir skömmu.

Tindastóll hefur misst fjóra reynda leikmenn frá síðustu leiktíð. Dejan Miljokovic er genginn í raðir Fjarðabyggðar, ekki verður samið aftur við Milan Markovic og Gísli Eyland hefur lagt hanskana á hilluna.

KF hafnaði í sjötta sæti 2. deildarinnar í fyrra en Tindastóll vann deildina og spilar í 1. deild í sumar.

Sjá einnig frétt frá Tindastóli hér.

Myndband frá leik ÍA og Tindastóls

Tindastóll mætti uppá Skipasaga og mætti Skagamönnum. Leikurinn endaði 4-1. Fannar Örn Kolbeinsson skoraði fyrir Tindastól, en Andri Adolphsson, Mark Doninger skoruðu sitt markið hvor og Egger Kári Karlsson skorði tvö mörk fyrir ÍA. Næsti leikur Tindastóls er gegn Víkingi n.k. laugardag kl. 17 í Egilshöll.

Leiklýsing frá Tindastól

Tindastóll spilaði sinn fyrsta leik í A-riðli lengjubikarsins á þessu ári. Mótherjarnir voru Íslandsmeistaraefni Skagamanna uppá Akranesi.

Leikurinn var flautaður á kl:12:00 á laugardaginn. Leikurinn var spilaður inn í Akraneshöllinni í nýstingskulda. Mikið frost var inni í höllinni og þeir sem stóðu fyrir utan völl áttu í mestu erfiðleikum með að halda á sér hita.

Tindastólsmenn vissu ekki hvað á sig stóð veðrið fyrsta korterið, en Skagamenn byrjuðu af gríðarlegum krafti og skoruðu mark strax eftir 2.mín. Markið kemur eftir hornspyrnu þar sem boltinn er ílla misreiknaður og leikmaður ÍA setur boltann yfir línuna af stuttu færi.
Áfram halda þungar sóknir Skagamanna og okkar menn höfðu mjög lítinn tíma á boltanum. Annað markið kemur eftir að hornspyrna er hreinsuð í burtu en Skagamenn ná, bolta nr.2 og senda háan bolta fyrir þar sem Skagamaður hoppar hæst og skallar boltann í markið.

Tindastólsmenn fóru síðan fljótlega að vinna sig inn í leikinn og fóru að halda boltanum betur. Árni Einar átti tvö góð langskot að marki Skagamanna og uppúr einu slíku fengum við horn þar sem Fannar Örn Kolbeinsson skoraði flott skallamark. Staðan orðin 2-1 og við vel inní leiknum.

Sóknir Skagamanna voru hættulegar í leiknum þó þeir hafi ekki átt mörk skot á markið. En þeir bæta síðan þriðja markinu við rétt fyrir hálfleik. Þar er enn ein fyrirgjöfin og Mark Doninger leikmaður ÍA stekkur hæst og skallar hann í markið.

Í seinni hálfleik höldum við boltanum vel innan liðsins og þær sóknir sem við fáum, útfærum við mjög vel en oft á tíðum vorum við að komast upp að endalínu en það vantaði fleiri menn inní boxið.
Skagamenn skora síðan fjórða mark sitt eftir að varnarmenn okkar voru ílla leiknir og Andri Adolphsson skorar í autt markið.

Lokatölur í leiknum voru 4-1 og leikmenn Tindastóls fundu fyrir því að vera að spila gegn liði sem er komið upp í Pepsí deildina. Hinsvegar var þetta fínn leikur að mörgu leiti hjá Tindastólsmönnum. Byrjunin var það sem fór með leikinn. Tvö mörk á fyrstu sjö mínutunum slógu okkar menn svoldið útaf laginu. Hinsvegar sýndum við mikinn karkakter að koma til baka og minnka muninn. Flott spila oft á tíðum var í leik okkar manna og gaman að sjá að liðið vill spila fótbolta.

Fleiri krefjandi verkefni fyrir okkar stráka eru á næstu vikum en liðið hefur engu að kvíða því Tindastólsliðið er mjög vel spilandi og vísir til alls.

Heimild: Tindastóll.is