Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar,  hafa undirritað samkomulag um styrk til Akureyrjarbæjar til starfsemi Virkisins. Styrkurinn hljóðar upp á þrjár milljónir króna.

Virkið er þverfaglegur samstarfsvettvangur fjórtán aðila á Akureyrar- og Eyjafjarðarsvæðinu og er meginmarkmiðið að grípa ungmenni sem falla milli kerfa og veita þeim heildstæðari þjónustu. Starfsemi Virkisins miðar að því að aðstoða ungmenni, á aldrinum 16-29 ára, sem þurfa á samfelldri þjónustu að halda vegna atvinnuleitar, skólagöngu, endurhæfingar eða annarrar meðferðar. Virkið býður upp á einstaklingsmiðaða ráðgjöf með það að markmiði að bæta líðan og efla virkni ungmenna í samfélaginu.

Með því að styðja við starfsemi Virkisins er stutt við snemmtæka íhlutun og forvarnarstarf á Norðurlandi og við undirritunina sagði Ásmundur Einar að það væri „mikilvægt að styðja við starfsemi af þessum toga, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins“ og að það væri „ánægjulegt að sjá gróskuna í úrræðum af þessum toga á Akureyri“.

Ásthildur sagði við undirritunina að það væri gríðarlega mikilvægt og ánægjulegt að finna fyrir einlægum áhuga ráðherrans á því góða starfi sem unnið er í Ungmennahúsinu á Akureyri. „Virkið er verkefni sem er algjörlega til fyrirmyndar og mikilvægt að finna því fastan farveg til lengri tíma litið. Hver einasti einstaklingur skiptir máli og það vita þeir sem starfa í Virkinu”.

Heimild: www.stjornarradid.is