Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) er starfrækt af Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum að Hólum, Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu. RMF auglýsir eftir umsóknum um styrki til rannsókna á sviði ferðamála, en styrkjunum er fyrst og fremst ætlað að standa undir launakostnaði. Styrkirnir verða veittir kennurum eða starfsfólki þeirra skóla sem standa að RMF og geta numið allt að 5 milljónum króna á ári í allt að þrjú ár.
Umsókn með stuttri lýsingu á rannsóknaverkefninu (3-5 bls. 1.500 orð að hámarki) skal m.a. taka á eftirfarandi atriðum:
- Stutt lýsing á aðalatriðum rannsóknaverkefnisins (útdráttur með titli).
- Hvernig tengist rannsóknarverkefnið einu, eða fleirum, af þremur áherslusviðum RMF, svonefndum rannsóknaáætlunum, en um þau má lesa á heimasíðu RMF (www.rmf.is) undir: Rannsóknir.
- Hvernig tengist rannsóknarverkefnið forgangsröðun verkefna RMF og niðurstöðu stefnumótunarvinnu um rannsóknir í ferðamálum sem mótuð var á hótel Reykjavík Natura dagana 10.-11. febrúar 2012, en um stefnuna er nánar fjallað á heimasíðu RMF (www.rmf.is) undir: Stefnumótun.
- Hvert er hagnýtt gildi rannsóknarverkefnisins og hvernig mun það nýtast ferðaþjónustunni, fræðasamfélaginu, stjórnvöldum eða öðrum hagsmunaaðilum?
- Er um að ræða beint samstarf við aðila í ferðaþjónustu eða aðra hagsmunaaðila? Hverja þá?
- Upplýsingar um aðra fjármögnun rannsóknaverkefnisins.
- Ef rannsóknaverkefnið felur í sér þátttöku framhaldsnema (meistara- eða doktorsnema) skal gera grein fyrir hlutverki þeirra í verkefninu og hag þeirra af því.
- Tímaáætlun (GANT rit) með skilgreindum áföngum.
- Kostnaðaráætlun.
Rannsóknaverkefnið skal hefjast eigi síðar en haustið 2012 og ljúka eigi síðar en í lok árs 2014 og skila skal skýrslu eftir hvern áfanga. Þar sem við á verður ákvörðun um framhald styrks tekin árlega á grundvelli framvindu. Styrkurinn verður greiddur við hver skil áfangaskýrslu og í lok verkefnis.
Skilafrestur er til 15. maí 2012 og umsóknum skal skila rafrænt til forstöðumanns RMF; Edward H. Huijbens (edward@unak.is). Stjórn RMF mun taka ákvörðun um hvaða verkefni verða styrkt fyrir 15. júní. Öllum umsóknum verður svarað. Stjórnin áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.