Fornleifadeild Byggðasafnsins fékk veglega verkefnastyrki úr Fornleifasjóði, samtals 4,5 milljónir.

Tvær milljónir fengust til rannsókna á fornum kirkjugarði á Stóru-Seylu á Langholti. Garðurinn kom óvænt í ljós við jarðsjármælingar á elsta bæjarstæði Seylubæjar árið 2008. Vitað var um annan og yngri garð við yngra bæjarstæði, sem liggur ofar í landinu. Það kom mjög á óvart að eldri garður skyldi finnast en við nánari könnun kom í ljós að garðurinn hefur verið nánast fullur þegar að hætt var að grafa í hann, einhvern tímann skömmu fyrir aldamótin 1100.  Ætlunin er að grafa garðinn upp að fullu en þannig fást einstakar heimildir um lífsviðurværi þeirr sem bjuggu í Seylu á 11. öld, gerð kirkju og kirkjugarðs og greftrunarsiði. Rannsóknin er unnin í samstarfi við hóp bandarískra sérfræðinga sem hafa unnið að jarðsjár- og fornleifarannsóknum í Skagafirði undanfarin 10 ár.

Ein og hálf milljón fékkst til að ljúka úrvinnslu uppgraftar kirkjugarðs og kumlateigs í Keldudal, Hegranesi. Minjarnar þar komu óvænt upp við framkvæmdir 2002 og 2003 og fór fram á staðnum svokölluð björgunarrannsókn þar sem leitast var við að bjarga sem mestum upplýsingum um minjarnar áður en þær hurfa að fullu. Rannsóknirnar voru á sínum tíma unnar fyrir takmarkað fjármagn og þótt styrkir hafi fengist til ýmissa sértækra rannsókna s.s. DNA rannsókna á beinum, var aldrei til nægt fjármagn til að klára úrvinnslu og útgáfu verksins. Styrkurinn gerir það mögulegt að klára úrvinnsluna og gefa út ítarlega skýrslu.

Milljón fékkst til skráningar minja á strandlengjunni út að austan (austurströnd Skagafjarðar). Mikið landbrot hefur átt sér stað, einkum á austurströnd fjarðarins, á seinustu áratugum. Við það hafa fjölmargar minjar horfið í hafið og margar eru í fyrirsjáanlegri hættu. Engin heildarmynd er til um hvernig eða hversu margar minjar kunna að vera í hættu vegna landbrots. Með skráningunni er ætlunin að fá slíka heildarmynd og vonandi að ná heimildum um hverfandi minjar áður en þær fara í sjóinn, sem mun gerast innan fárra ára ef fram fer sem horfir.

Styrkirnir hafa afar mikla þýðingu fyrir rannsóknarstarf Byggðasafnsins og stuðla að frumrannsóknum á skagfirskum minjaarfi sem leiða til aukinnar þekkingar, markvissari varðveislu hans og nýtingar í framtíðinni. Þrír starfsmenn eru nú í fullu starfi á fornleifadeild safnsins. Auk þeirra starfa er eitt og hálft starf á ársgrundvelli við safnið, til að annast almenn safnastörf. Í þeim eru safnstjóri og starfsmaður við munaskráningar.

Heimild: Byggðasafn Skagfirðinga