Stóri plokkdagurinn verður haldinn á Degi umhverfisins laugardaginn 25. apríl.

Fyrirtæki og bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt í hreinsun og fegrun umhverfisins af tilefni degi umhverfisins, 25. apríl.

Nú er akkúrat tíminn þar sem rusl er áberandi, snjórinn er á undanhaldi og gróðurinn að taka við sér, það gerir ruslatínslu auðveldari.  Samkomubann er alveg upplagt til að taka á því í plokkinu. Frábær útivera og hreyfing um leið og við finnum fyrir tilgangi, sjáum árangur, eflum núvitund og gerum umhverfinu og samfélaginu okkar gott.

Eru íbúar eindregið hvattir til að taka þátt og fara út og plokka upp rusl í sínu næsta nágrenni. Fjallabyggð mun taka þátt og leggur til poka sem aðgengilegir verða áhugasömum Plokkurum fyrir utan Kaffi Klöru í  Ólafsfirði og fyrir utan Þjónustumiðstöðina á Siglufirði.

Hægt er að skilja eftir poka við gámasvæðin og mun sveitarfélagið sjá um að fjarlægja þá.

Plokkum í samkomubanni:
– Frábær hreyfing fyrir alla aldurshópa
– Einstaklingsmiðað
– Hver á sínum hraða
– Hver ræður sínum tíma
– Frábært fyrir umhverfið
– Fegrar nærsamfélagið
– Öðrum góð fyrirmynd

Plokk á Íslandi er hópur einstaklinga sem bera virðingu fyrir umhverfinu og hafa það sem áhugamál að fara um illa hirt svæði og þrífa þar upp plast, pappa og annað rusl sem fallið hefur til frá íbúum, framkvæmdum eða þungaflutningum innan marka sveitarfélaga, á girðingum og í skurðum á víðavangi og síðast en ekki síst við strendur landsins. Hópurinn á sérsvæði á Facebook og telja meðlimir hans rúmlega 6.000 manns. Þar deila meðlimir sigrum og áskorunum í umhverfismálum og þar hvetja meðlimir hvor aðra til dáða og birta myndir af rusli sem tekið hefur verið úr náttúrunni og fært á viðeigandi stofnanir.