Föstudaginn 3. maí verða tónleikar í Alþýðuhúsinu á Siglufirði með tríó Richard Andersson NOR og á sunnudaginn 5. maí verður Már Örlygsson með erindi á Sunnudagskaffi með skapandi fólki.
Tónleikarnir með Tríó Richard Andersson NOR hefjast kl. 21.00. Húsið opnar kl. 20.45 og tekið er við frjálsum framlögum við innganginn.
Richard Andersson NOR frumfluttu aðra plötu sína, „The six of us”, á Reykjavik Jazzfestival 2018.
Tríóið skipa:
Richard Andersson, kontrabassi
Óskar Guðjónsson, saxófónn
Matthías Hemstock, trommur
Richard Andersson NOR er víxlverkun tveggja menningarheima innan amerísks nútímajazz ramma. Tónlist Andersons einkennist af tærð og einfaldleik, en flutningur tríósins færir hana í margbreytnari og jafnvel tilraunakenndan búning. Markmið þessarra þriggja tónlistarmanna er að gefa frá sér tónlist sem er melódísk og ljóðræn í eðli sínu en býður upp á tækifæri til óhefðbundnari túlkunar í takt við tónvitund hvers og eins þeirra.
Sunnudagskaffi með skapandi fólki
Sunnudaginn 5. maí 2019 kl. 14.30 verður Már Örlygsson hönnuður með erindi á Sunnudagskaffi með skapandi fólki í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Kaffiveitingar í boði og eru allir velkomnir.