Stofnaði nýtt fyrirtæki á Siglufirði á sviði ljósmyndunar

Kristín Sigurjónsdóttir er uppalin á Siglufirði og stofnaði nýlega fyrirtæki á sviði ljósmyndunar, en þar er meðal annars boðið uppá ljósmyndastúdíó og fjölbreyttar myndatökur. Við tókum Kristínu viðtali og fengum nánari upplýsingar um þetta nýja fyrirtæki. Kristín er í sambúð með Gunnari Smára Helgasyni, en hann rekur meðal annars Útvarp Trölla í Fjallabyggð.

Segðu okkur nánar frá þér og hvað þú hefur fengist við síðustu árin?

Kristín Sigurjónsdóttir heiti ég og er fædd og uppalin á Siglufirði. Eftir áralanga búsetu sunnan heiða kom ég aftur norður árið 2011 og settist að í heimahögunum. Ég hef alltaf haft áhuga á ljósmyndun og hóf ég nám í listljósmyndun á listabraut Menntaskólans á Tröllaskaga árið 2012. Ég lauk því námi með útgáfu ljósmyndabókarinnar Ljósbrot.

Hvernig myndir tekur þú aðallega?

Ég hef verið að taka að mér ljósmyndaverkefni af ýmsum toga, fréttamyndir, auglýsingamyndir, fermingamyndir, brúðkaupsmyndir, barnamyndir og paramyndatökur ásamt því að selja allskonar landslagsmyndir.

Hefur þú haldið sýningar á verkum þínum?

Ég hef haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum, bæði hérlendis og erlendis og sýnt þar m.a. stórar ljósmyndir prentaðar á striga.  Einnig er uppi sýning eftir mig í Reykjavík.

Hvað er framundan hjá nýja fyrirtækinu?

Nýlega settum við maðurinn minn upp ljósmyndastúdíó á heimili okkar á Siglufirði og bjóðum upp á fjölbreyttar myndatökur. Í tilefni af opnun stúdíósins verðum við með tilboð á jóla- fjölskyldumyndum sem gildir til 15. desember 2017.  Einnig opnuðum við heimasíðu www.ksart.is þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar um starfsemi KS Art Photography.