Í kvöld hefst formlega Sólstöðuhátíð í Grímsey þar sem fagnað er í „nóttlausri voraldar veröld, þar sem víðsýnið skín“ eins og segir í kvæðinu eftir Stephan G. Þetta árið er dagskrá hátíðarinnar að venju fremur glæsileg og öllu tjaldað til. Í tengslum við Sólstöðuhátíðina er listaverkið „Hringur og kúla“ (Orbis et Globus) fært til svo það sitji á réttri staðsetningu norðurheimskautsbaugsins hverju sinni og var það gert fyrr í vikunni. Mjög margir gestir eru nú þegar komnir til Grímseyjar og þeim á eftir að fjölga eftir því sem líður á helgina. Þó er enn hægt að finna laus gistirými og alltaf er hægt að pota niður fleiri tjöldum á tjaldsvæðinu. Veðurspáin fyrir Norðausturland er góð fyrir helgina og virðist vindur vera að snúast til suðlægrar áttar.

Dagskrá:

Fimmtudagur 20. júní

Kl. 18.00: Veitingastaðurinn Krían opnaður.

Kl. 21.00: Tónleikar á Kríunni. Hjónadúettinn Elvý & Eyþór leika hugljúfa tónlist úr öllum áttum.

Föstudagur 21. júní

Kl. 15.00–17.00: Markaður á bryggjunni.

Kl. 15.30: Lifandi tónlist á palli Gallerí Gullsólar.

Kl. 17.30: Dorgveiðikeppni barna.

Kl. 18.30: Verðlaunaafhending og afhjúpun á listaverki á Fiskmarkaði. Grillaðar pylsur fyrir börnin.

Kl. 19.00–20.30: Súpurölt til heimamanna.

Kl. 22.00: Sigling í kringum eyjuna.

Kl. 23.59: Ganga út á eyjarfót í miðnætursól. Lifandi tónlist.

Laugardagur 22. júní

Kl. 11.00: Ganga með leiðsögn.

Kl. 14.00: Fjölskylduratleikur.

Kl. 19.00: Sjávarréttakvöld kvenfélagsins.

Kl. 21.00: Barnaball.

Kl. 23.00: Ball í félagsheimilinu.

Sunnudagur 23. júní

Kl. 14.30–16.00: Markaður á bryggjunni.

Kl. 21.00: Varðeldur og brekkusöngur í Grenivíkurfjöru.