Sögustund af stofnun félagsins

Íþróttafélagið Drangey

Á fögrum haustdegi, 10. október 1946, kom saman á Sauðárkróki hópur drengja á aldrinum 9-13 ára til að stofna íþróttafélag. Fundurinn var haldinn að lokinni æfingu á íþróttavellinum úti á Eyri, uppi í brekkunni undir berum himni. Skagafjörður skartaði sínu fegursta, útverðirnir, Drangey, Málmey og Þórðarhöfði, blöstu við sjónum okkar að ógleymdum Tindastól og Reykjaströnd. Þetta var heillandi dagur, og áhuginn skein úr hverju andliti.  Forgöngumenn að stofnun félagsins voru þeir Kári Jónsson, Gísli Blöndal og Hörður Pálsson. Tvær tillögur komu um heiti félagsins. Hörður Pálsson kom með þá tillögu að nafnið yrði  Drangey en Gísli Blöndal stakk upp á því að félagið yrði kennt við bæinn og skirt íþróttafélag Sauðárkróks. Ræddum við drengirnir málin um stund og ákváðum að nefna íþróttafélagið Drangey. Síðan var stjórn kosin. Hana skipuðu Hörður Pálsson formaður, Kári Jónsson ritari og Ásgrímur Helgason gjaldkeri. Fundurinn ákvað einnig að haldið yrði innanfélagsmót næsta sunnudag og er það eitt merki hins einhuga vilja fundarmanna. Síðar voru félaginu sett lög, en markmið þess var að æfa og keppa í frjálsum íþróttum.

Að lokum var ársgjaldið ákveðið og var niðurstaðan 5 krónur. Lágu þá eigi fleiri mál fyrir fundinum enda tekið mjög að skyggja. Fundi slitið kl. 6 , e.h.

Ekki áttum við peninga til að kaupa fyrir ahöld til íþróttaiðkana, en einhvern veginn tókst að öngla saman fyrir drengjakúlu. Ég man að við fengum Vagn Kristjánsson til að kaupa hana fyrir okkur, en hann var með bíl í forum milli Reykjavíkur og Sauðárkróks. Oft var kúlunni kastað á lóðinni fyrir framan húsið hjá Gísla Blöndal. Var komin stór dæld í blettinn þar sem hún lenti oftast. Ég man, að Lárus, faðir Gísla, stóð oft á tröppunum og fylgdist með tilþrifunum. Hafði hann auðsjáanlega lúmskt gaman að.

En ekki nægði okkur að eiga aðeins kúluna. Okkur vantaði fleiri íþróttaáhöld. Því var ákveðið að halda dansleik í Bifröst til fjáröflunar. Við fengum Björn Gíslason harmonikkuleikara til að spila fyrir dansinum. Talsvert kom af fólki á ballið og man ég, að sumum dansgestunum varð fremur starsýnt á okkur þessa peyja , sem stóðum við dyrnar og rukkuðum aðgangseyrinn. Fyrir ágoðann var keypt kringla, spjót, málband og skeiðklukka. Voru þetta miklir dýrgripir í okkar augum, og hver stund var notuð til æfinga.

 

Eitt atvik er mér afar minnisstætt . Við vorum að æfa úti á Eyri. Óskar bróðir minn var að kasta spjóti, og geigaði kastið hjá honum. Spjótið flaug upp í brekku, þar sem nokkrir drengir voru að leika sér. Skipti það engum togum , að spjótið lenti í handarkrika eins drengsins, Ella Egils, og gekk á hol. Varð að fara með hann á spítala til að gera að sárum hans. Þar munaði ekki miklu að verr færi. Hefði spjótið stungist örlitlu innar hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Þetta atvik hafði mikil áhrif á okkur drengina.

 

Íþróttafélagið Drangey starfaði í um það bil þrjú ár. Það hafði veruleg áhrif , því að mikill íþróttaáhugi kviknaði af starfi þess. Sá áhugi hélst hjá mörgum fram á fullorðinsár.

En það voru ekki einungis drengir úr Ytrikróknum , sem æfðu íþróttir. Strákarnir í Suðurbænum vildu sýna , að þeir væru ekki síður liðtækir í íþróttum en við. Stofnuðu þeir Knattspyrnufélag Sauðárkróks (K.S.)

Fundir voru haldnir nokkuð reglulega, og þá var farið eftir almennum fundarsköpum. Og við gáfum út blað, Íþróttablaðið Drangey, sem lesið var upp úr á fundinum. Þar var nær einungis fjallað um íþróttir. Þetta starf var mjög þroskandi  fyrir okkur og hefur komið að góðu haldi seinna á lífsleiðinni. Vorið 1949 gengum við flestir félagarnir í ungmennafélagið Tindastól.

Þegar Íþróttafélagið Drangey var leyst upp og við gengum félagarnir í Tindastól, bættust ungmennafélaginu ekki aðeins íþróttamenn, heldur félagsvanir drengir, sem höfðu stýrt fomlegu félagi í þrjú ár. Leið ekki á löngu þar til ýmsir þeirra voru kjörnir til trúnaðarstarfa fyrir Tindastól.

Það sem ef til vill er merkilegasta við Íþróttafélagið Drangey er hið mikla starf, sem félagarnir lögðu á sig, t.d. við að merkja og hreinsa íþróttavöllinn, skipuleggja mót, halda uppi reglubundnu félagsstarfi o.s. frv. Og aldrei nutum við aðstoðar fullorðinna í þessum efnum. Við gerðum allt sjálfir, sem gera þurfti. Þegar ég hugsa um þetta núna. Finnst mér þessi félagsstarfsemi í sjálfu sér afrek, því að aldur okkar var ekki ýkja hár. Við vorum sem fyrir segir 9-13 ára. En þetta er glöggt dæmi um það, hvað unglingar geta í rauninni gert merkilega hluti , ef þeir fá sjálfir að njóta sín.

Heimild: Hörður Pálsson

Ungmennafélagið Tindastóll – 1907-1982
Texti: Tindastóll.is