Sögulegur fjöldi skemmtiferðaskipa til Siglufjarðar

Alls hafa 35 skemmtiferðaskipakomur verið bókaðar til Siglufjarðar í ár og er það meira en tvöföldun frá síðasta ári en þá voru 14 skipakomur bókaðar, og 19 árið 2015. Fyrsta skipið kemur 19. maí en það er Ocean Diamond sem er með 190 farþega sem stoppa í hálfan dag á Siglufirði. Þaðan fer skipið til Grímseyjar og loks til Akureyrar skömmu eftir miðnætti. Á Akureyrarhöfn voru 93 skemmtiferðaskipakomur árið 2016 og 86 árið 2015. Í ár eiga þeir von á 122 skemmtiferðaskipakomum og rúmlega 120.000 farþegum. Fjölmennustu farþegarnir síðustu ár hafa komið frá Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Nánar verður fjallað um skipakomur hér á vefnum eins og síðustu árin. Nánari upplýsingar um komutíma á Siglufirði má finna hér á síðunni.