Hver á ekki leið um Norðurland vestra brunandi eftir hringveginum? En hvað ef staldrað er við og vikið er út af honum? Nú á haustdögum gefst tilefni til þess.
Nærri 30 söfn og setur á Norðurlandi vestra opna dyr sínar fyrir gestum og gangandi – frá Borðeyri í vestri til Hofsóss í austri – og bjóða gestum upp á sérstaka dagskrá, sýningu eða viðburð allt eftir eðli staðarins.
Samstarfið hófst síðastliðið haust með átján þátttakendum. Framtakinu var svo vel tekið að ákveðið var að endurtaka leikinn en stíga skrefið til fulls. Í ár er því Söguleg safnahelgi haldin um allt Norðurland vestra. Listi þátttakenda, hér fyrir neðan, ber með hversu ótrúlega fjölbreytta flóru er að finna hér á Norðurlandi vestra, þannig ætti hver og einn að finna eitthvað við sitt hæfi.
Sambærilegir viðburðir hafa að sjálfsögðu verið haldnir áður og annars staðar en það má tvímælalaust halda því fram að aldrei áður hafi tekist svo víðtækt samstarf eins og hér er stefnt að.
Boðið er til fagnaðar á Norðurlandi vestra helgina 13. -14. október. Opið verður 12:00 – 18:00 laugardag og sunnudag frá Borðeyri í vestri til Hofsóss í austri. Sá sem heimsækir að minnsta kosti 4 söfn lendir í lukkupotti og getur unnið glæsilegan vinning.
Viðburðurinn er styrktur af Menningarráði og Vaxtarsamningi Norðulands vestra.
Frekari upplýsingar og dagskrá er að finna á heimasíðunni www.huggulegthaust.is
• Riis hús Borðeyri.
• Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna Reykjum.
• Húsfreyjurnar Vatnsnesi / Sviðamessa.
• Selasetrið Hvammstanga.
• Verslunarminjasafnið Bardúsa Hvammstanga.
• Grettistak Laugarbakka / Spes sveitamarkaður.
• Langafit handverkshús Laugarbakka.
• Landnám Ingimundar gamla Vatnsdal.
• Þingeyrakirkja.
• Eyvindarstofa Blönduósi.
• Háskólasetur Blönduósi.
• Hafíssetrið Blönduósi.
• Laxasetur Íslands Blönduósi.
Innsent efni / www.huggulegthaust.is