Öll þurfum við einhvern tímann á lífsleiðinni á heilbrigðisþjónustu að halda, allt frá þörf fyrir heilsueflingu og stuðning til þess að auka vellíðan og fyrirbyggja sjúkdóma, til margþættari og flóknari þjónustu vegna slysa og langvinnra eða bráðra sjúkdóma.
Lykilþátturinn í því að byggja landið allt
Einn fjárfrekasti útgjaldaliður ríkissjóðs er heilbrigðiskerfið og aðgangur að þjónustu er einn lykilþátturinn í því að tryggja búsetu um land allt, enda kemur skýrt fram í heilbrigðisstefnu stjórnvalda til ársins 2030 að meginmarkmið íslenskrar heilbrigðislöggjafar skuli vera að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til að vernda andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks.
Fólk neitar sér um læknisþjónustu
Íbúar landsbyggðarinnar hafa orðið áþreifanlega varir við að verulega hefur dregið úr þjónustu við þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, sérstaklega þeir sem þurfa að ferðast um langan veg með tilheyrandi kostnaði og tekjutapi. Hið sama á við um aðstandendur, sem þurfa oft á tíðum að fylgja sjúklingum.
Af störfum mínum á Eyjafjarðarsvæðinu, þekki ég hversu algengt það er að fólk hreinlega neitar sér um að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, kostnaðarins vegna.
Ólíðandi og samfélaginu til skammar
Greiðsluþátttökukerfið tekur takmarkað tillit til ferða- og dvalarkostnaðar fólks af landsbyggðinni. – „Þetta er til skammar fyrir íslenskt samfélag og er algerlega óásættanlegt,“ segir í ályktun formannafundar Starfsgreinasambandsins, sem krefst þess að þegar verði gripið til aðgerða til að tryggja jafnt aðgengi landsmanna að allri heilbrigðisþjónustu.
Vissulega breytist tæknin og varla er hægt að fara fram á að öll þjónusta sé til staðar á öllum stöðum.
Skilningsleysi kerfisins
Á þingi Starfsgreinasambands Íslands í síðasta mánuði voru heilbrigðismál sérstaklega rædd og ályktun samþykkt, sem send hefur verið til sjórnvalda. Minnt er á að heilbrigðisþjónusta sé hluti af samfélagssáttmálanum og aðgengi fólks að henni sé ein af forsendum byggðar í landinnu.
„Starfsgreinasamband Íslands fordæmir það skilningsleysi sem sjúklingum jafnt sem aðstandendum er sýnt þar sem ósveigjanlegt greiðsluþátttökukerfi tekur ekki tillit til ferða- og dvalarkostnaðar fólks og verður því til að rýra kjör fólks úti á landi umfram aðra. Það er ömurleg staðreynd að margir Íslendingar búi við þetta mikla óöryggi og þurfi auk þess að neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sökum kostnaðar,“ segir meðal annars í ályktun þings Starfsgreinasambandsins.
Þá er þess krafist að forvarnir og geðheilbrigðisþjónusta verði stórefld, sérstaklega þurfi að huga að ungu fólki í þessum efnum.
Kallað eftir samtali við stjórnvöld
Heilbrigðiskerfið er einn af hornsteinum samfélagsins og ef við viljum í raun og veru byggja landið allt, verður að bæta heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni.
Verkalýðshreyfingin kallar eftir samtali við stjórnvöld um framtíðar- fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Málið er sannarlega brýnt og varðar okkur öll.
Höfundur er formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands.
Birt með leyfi höfundar.