Skagfirðingafélagið í Reykjavík fagnar 75 ára afmæli sínu í dag laugardaginn 3. nóvember í Þróttaraheimilinu í Laugardal í Reykjavík. Af því tilefni býður félagið öllum brottfluttum Skagfirðingum til kaffisamsætis milli klukkan 14:00 og 16:00 en þar verða einnig skagfirskir skemmtikraftar sem hjálpa til við að gera stemninguna léttari. Um kvöldið verður svo dansað fram á nótt.

Meðal þeirra sem koma fram eru söngvararnir Ásgeir Eiríksson og Svana Berglind Karlsdóttir ásamt píanóleikaranum Jónasi Þóri en öll eiga þau ættir sínar að rekja í fjörðinn fagra. Það gera þeir einnig Kristján Runólfsson hagyrðingur sem yrkir um allt sem sést hefur á jarðarkringlunni og Björn Jóhann Björnsson sem skráð hefur skemmtilegar sögur af Skagfirðingum en annað bindið af þeim er að koma út á næstunni og mun hann efalaust segja sannar og lognar sögur af sveitungum sínum í afmælinu.

Klukkan 22:30 verður Þróttaraheimilið opnað á ný en þá verður boðið upp á tónlist samda og flutta af Skagfirðingum….m.a. lög eftir Geirmund Valtýsson, Hörð G. Ólafsson, Von, Kristján Gísla, Dætur Satans, Ellert Jóhanns, Herramenn, Álftagerðisbræður, Erlu Gígju, Ásdísi Guðmunds, Hreindísi Ylvu, Snorra Everts og lög sem keppt hafa í Sæluvikulögunum svo eitthvað sé nefnt. Hljómsveitin Gildran mun svo setja punktinn yfir I-ið og halda uppi fjöri upp úr miðnætti.

Heimild: www.feykir.is