Í ljósi aukinnar útbreiðslu kórónaveirunnar síðustu daga og hertari reglum um samkomubann verður sýningum Síldarminjasafnsins lokað fyrir gestum frá og með mánudeginum 23. mars og á meðan samkomubann er í gildi. Þetta kemur fram á vef Síldarminjasafnsins.
Starfsfólk safnsins mun áfram sinna vinnu við ýmis verkefni er snúa að faglegu starfi. Sem dæmi má nefna skráningu á ljósmyndasafni og gerð nýrrar vefsíðu, úrvinnslu á viðtölum sem tekin voru víða um land á síðasta ári, endurnýjun sýninga og skráningu á safnkosti.