Sigríður Ingvarsdóttir hefur verið ráðin bæjarstjóri Fjallabyggðar fyrir kjörtímabilið 2022 til 2026. Alls sóttu 22 einstaklingar um starfið, 8 umsækjendur drógu umsóknir sínar taka baka. Sigríður er fyrrverandi forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, eins hefur hún átt sæti á Alþingi og setið í bæjarstjórn á árum áður. Sigríður er m.a. með MBA gráðu frá Háskóla Íslands og diploma gráðu í opinberri stjórnsýslu. Hún hefur víðtæka reynslu af starfi með frumkvöðlum og fyrirtækjum. Hefur setið í fjölmörgum stjórnum, nefndum, ráðum og starfshópum og sinnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir hin ýmsu ráðuneyti s.s. verið stjórnarformaður yfir Átaki til atvinnusköpunar og stjórnarformaður Verknaust, þ.e. verkefnisstjórnar um nýtingu náttúruauðlinda í Þingeyjarsýslum.

Sigríður segist bæði stolt og þakklát fyrir það traust sem bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur sýnt henni með þessari ráðningu. ,,Ég er full tilhlökkunar að flytja norður í þetta blómlega og fjölskylduvæna byggðarlag og takast á við þau spennandi verkefni sem framundan eru, í samstarfi við öfluga bæjarstjórn og starfsfólk Fjallabyggðar.“

Sigríður mun formlega taka við starfi bæjarstjóra að loknum sumarleyfum en fram að þeim tíma mun hún vinna að ákveðnum málum í samvinnu við bæjarstjórn.

S. Guðrún Hauksdóttir forseti bæjarstjórnar og Guðjón M. Ólafsson formaður bæjarráðs Fjallabyggðar segja að þau hlakki til komandi kjörtímabils og til þess að takast við þau verkefni sem eru framundan. Ráðningarferlið var unnið faglega og sóttu margir hæfir einstaklingar um stöðuna, sem er merki um mikinn áhuga á Fjallabyggð og það sé einstaklega ánægjulegt. Þau efast ekki um að hæfni Sigríðar eigi eftir að nýtast bæjarfélaginu vel á komandi árum. Reynsla og þekking hennar á fyrirtækjarekstri, hinu opinbera og samfélagsmálum muni gagnast sveitarfélaginu vel og bjóða þau hana velkomna til starfa.

Texti: Aðsend fréttatilkynning. Ljósmynd: Silla Páls.