Selir verða taldir á Vatnsnesi og Heggstaðarnesi í Húnaþingi vestra um helgina. Í fyrra voru taldir liðlega eittþúsund selir á þessum slóðum.
Talningin fer þannig fram að allir sjáanlegir selir eru taldir samtímis á stórstreymisfjöru, á um það bil eitthundrað kílómetra strandlengju. Talningin byggir algjörlega á þátttöku sjálfboðaliða sem vilja taka þátt í rannsóknarstörfum, og segir Sandra M. Granquist dýraatferlisfræðingur hjá Selasetri Íslands á Hvammstanga að talningin nýtist Selasetri Íslands við ýmsar rannsóknir sem þar eru stundaðar. Ýmsir koma að talningunni.
„Þetta eru bæði heimamenn, sem hafa áhuga á þessu, og síðan erum við líka með fólk sem er á ferðinni, erlendir og íslenskir ferðamenn sem eru að koma. Margir koma sérstaklega vegna þessarar talningar,” sagði Sandra.
Áætlað er að um 1000 selir séu við Vatnsnesið og á Heggstaðarnesi og hafa talningar verið gerðar á svæðinu síðan árið 2007.
Texti: Rúv.is