Sameining skólastiga í Grunnskóla Fjallabyggðar

Fræðslu- og frístundanefnd  Fjallabyggðar ásamt vinnuhópi hefur endurskoðað fræðslustefnu Fjallabyggðar.  Með nýrri fræðslustefnu er mörkuð skýr stefna til framtíðar þar sem grunngildin kraftur, sköpun og lífsgleði eru höfð að markmiði. Stefnt er að auknu og góðu samstarfi milli allra skólastiga en í Fjallabyggð er að finna leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla og framhaldsskóla.  Með sameiningu allra skólastiga grunnskólans er horft bæði til faglegra og félagslegra þátta. Samkennslu í 1.- 4. bekk í báðum bæjarkjörnum verður hætt og þannig er tryggt að allir nemendur fái sömu námstækifæri í árgangaskiptum bekkjadeildum og að aukinn stöðugleiki í félagslegum tengslum náist. Frá og með hausti 2017 mun 1.-5. bekk verða kennt í húsnæði Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði og 6.-10. bekk í húsnæði skólans í Ólafsfirði.

Með auknu samstarfi Grunnskóla Fjallabyggðar og Menntaskólans á Tröllaskaga gefst nemendum meðal annars kostur á fjölbreyttara námsframboði, auknum námstækifærum, einstaklingsmiðaðra námi og öflugri sérfræðiþjónustu.