Síðustu vikurnar hefur Anita Elefsen safnstjóri Síldarminjasafnsins ferðast um landið með kvikmyndatökumanni í þeim tilgangi að taka viðtöl við bæði menn og konur sem unnu í síld, hvort sem var í landi eða á sjó. Meginmarkmiðið er að afla heimilda um líf og störf fólks, tíðarandann, rómantíkina, erfiðið, tilfinningarnar, tónlistina, félagslífið, verkunaraðferðir, hjátrú og aðra mikilvæga þætti þessa tímabils í sögu þjóðarinnar og varðveita á Síldarminjasafninu. Áætlað er að viðmælendur verði nálægt sjötíu í heildina – en upphaflega var stefnt að þrjátíu viðtölum. Frá þessu er greint á vef Síldarminjasafnsins.
Jafnframt er ætlunin að velja stutt brot úr viðtölunum til miðlunar í safnhúsum Síldarminjasafnsins. Sýnt er að áhugi gesta kviknar fljótt þegar sagan er sögð út frá persónulegri reynslu eða hún persónutengd á einhvern hátt.
Viðmælendur hafa fram til þessa verið fimmtíu talsins, á Siglufirði, Dalvík, í Hrísey, á Akureyri, Húsavík, Ísafirði, Reykjavík og Akranesi. Meðal þeirra sem rætt hefur verið við eru fyrrum síldarstúlkur, verksmiðjukarlar, sjómenn, skipstjórar og netagerðarmenn.
Verkefnið er styrkt af Safnaráði en þar að auki hafa söfn og menningarstofnanir lagt verkefninu lið með vinnuaðstöðu sem hefur komið sér afar vel.
Heimild: sild.is