Um næstu mánaðamót taka gildi breytingar á húsaleigulögum sem Alþingi samþykkti í júní. Markmið breytinganna er að bæta réttarstöðu leigjenda og auka húsnæðisöryggi.

Meðal breytinga er að vísitölutenging styttri samninga verður óheimil og skilyrði verða sett fyrir því að leigjendur eða leigusalar geti farið fram á breytingar á leigufjárhæð. Þá verður leigusali að kanna hvort leigjandi ætli að nýta sér forgangsrétt og leigusala verður óheimilt að segja upp ótímabundnum samningi án ástæðu.

Kærunefnd húsamála verður efld til að tryggja öflugt og skilvirkt réttarúrræði við úrlausn á ágreiningi milli samningsaðila. Loks verður ráðist í fræðsluátak í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins um réttindi á leigumarkaði og aðilum leigusamninga tryggð áframhaldandi lögfræðiráðgjöf um réttindi sín og skyldur þeim að kostnaðarlausu. Ráðgjöf og upplýsingagjöf til leigjenda verður einnig aukin í samstarfi við Leigjendaaðstoðina.

Lögin taka gildi 1. september og breytingarnar taka til samninga sem gerðir eru eftir þann tíma auk samninga sem eru endurnýjaðir eða framlengdir eftir þann tíma.