Hluti skýringarinnar á fjárhagsvanda Hólaskóla er sá að skólinn hefur aldrei haft samning við menntamálaráðuneytið um kennslu á háskólastigi. Þetta segir nýr rektor skólans.

Erla Björk Örnólfsdóttir tók nýlega við stöðu rektors við háskólann á Hólum. Erla boðar enga byltingu í rekstri skólans, sem situr uppi með uppsafnaðan rekstrarhalla, en eitt af hennar fyrstu verkum í starfi hefur verið að ýta á eftir samningi við mennta – og menningarmálaráðuneytið um kennslu á háskólastigi. Að hennar sögn er slíkur samningur í undirbúningi.

„Eins og staðan er í dag er Hólaskóli ekki með samning við Menntamálaráðuneytið um kennslu á háskólastigi, allir aðrir háskólar hafa það. Háskólinn á Hólum hefur aldrei haft samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið um kennslu á háskólastigi.  Þannig að Háskólinn á Hólum fær ekki greitt samkvæmt þeim nemendum og nemendaígildum sem hér eru. Þannig að Háskólinn á Hólum hefur fengið greiddar upphæðir samkvæmt samingum sem eru ekki tengdar því námi sem kennt er hérna. Sem er hluti af því afhverju háskólinn áhólum er í fjárhagsörðugleikum af því að reksturinn er kannski ekki í takt við kennsluna.”

Erla segir að samningurinn skipti miklu máli fyrir allan rekstur skólans auk þess sem hann sé mikil viðurkenning fyrir skólann.

„Það er mjög stórt skref í viðurkenningu á því starfi, því góða starfi sem er unnið hér, þannig að já við bíðum í ofvæni.”