Trostan Agnarsson hefur verið ráðinn skólastjóri við Varmahlíðarskóla og mun hefja störf við upphaf næsta skólaárs þann 1. ágúst næstkomandi. Alls bárust tvær umsóknir um starfið.

Trostan lauk námi til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands og fékk leyfisbréf kennara árið 2007. Þar áður hafði hann lokið BA prófi í íslensku frá Háskóla Íslands. Trostan hefur 15 ára kennslureynslu, en hann starfaði í Laugargerðisskóla á tímabilinu 2007-09, sem umsjónarkennari og vann einnig að félagsmálum nemenda. Hann var í Tálknafjarðarskóla skólaárið 2009-10, þar sá hann um umsjónarkennslu ásamt því að vera staðgengill skólastjóra. Árin 2010-15 starfaði Trostan í Höfðaskóla þar sem hann var umsjónarkennari, en einnig aðstoðarskólastjóri í eitt ár sem og staðgengill skólastjóra.

Trostan hóf störf í Varmahlíðarskóla árið 2015 og hefur aðallega verið með umsjónarkennslu þar. Trostan hefur jafnframt starfað í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra eina önn þar sem hann sá um kennslu í ensku og íslensku.