Pósthúsið á Siglufirði til sölu

Ríkiskaup hefur sett á sölu húsnæði Íslandspóst á Siglufirði þar sem póstafgreiðslan er til húsa. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti er nú verið að leita að öðru húsnæði fyrir póstafgreiðsluna.

Eignin skiptist í afgreiðslu og móttökurými með góðu vinnurými baka til, tvær skrifstofur, kaffistofu, geymslu ofl. Aðalinngangur er frá Grundargötu. Húsnæðið er 234,7 m² og byggt árið 1964. Að innan er húsnæðið mikið í upprunalegri mynd. Húsnæðið þarfnast nokkurs viðhalds bæði að  utan og innan og eru einhverjar rakaskemmdir sýnilegar. Aðkoma er góð og bílstæði meðfram Aðalgötu og Grundargötu.

Einnig er til sölu efri hæð hússins þar sem er rúmgóð 3. herbergja íbúð, alls 126 m².  Íbúðin samanstendur af stofu, tveimur rúmgóðum svefnherbergjum, eldhúsi, þvottahúsi og baðherbergi. Þá er rúmgott miðrými í íbúðinni og svalir. Í gildi er leigusamningur sem er uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara.  Ástand íbúðar er gott.

Óskað er eftir tilboðum í hvorn eignarhluta fyrir sig eða báða saman. Skila skal inn tilboðum til Ríkiskaupa fyrir kl. 15:00, fimmtudaginn 21. september 2017.