Ágætu íbúar Fjallabyggðar.

Á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar í morgun var tillaga starfshóps um viðbrögð vegna Covid-19 um endurskoðun framkvæmdaáætlunar samþykkt. Um er að ræða eitt fjölmargra viðbragða sem ráðist hefur verið í vegna farsóttarinnar en ólíkt fyrri viðbrögðum þá snýr þetta að vegferðinni út úr því ástandi sem nú er uppi en er ekki viðbragði við smithættu. Með öðrum orðum þá erum við nú að hefja vegferðina út úr ástandinu, ef ekkert nýtt kemur upp á er varðar smit.

Tillaga starfshópsins snýr eins og áður segir að endurskoðun framkvæmdaáætlunar og er í raun fjórskipt. Fyrst er frestun ákveðinna framkvæmda þar til við sjáum betur hver efnahagsáhrif faraldursins verða á Fjallabyggð og landið allt. Þá koma tillögur að nýjum smærri verkefnum sem hafa það að markmiði að verja störf í samfélaginu, viðhalda eignum og bæta ýmsa þætti s.s. umferðaröryggi. Þriðji þáttur tillagna er umhverfisátak í Fjallabyggð þar sem annarsvegar verður farið í að stórbæta aðstöðu á tjaldstæðinu á Ólafsfirði og hins vegar að bæta ásýnd bæjarfélagsins með tiltekt og umhverfisúrbótum. Fjórði þáttur málsins er að setja fram hvaða verkefni eru og verða á dagskrá ársins, þar er um að ræða fjölbreytt verkefni af öllum stærðum.

Fram kemur í minnisblaði starfshópsins (sem nálgast má hér) það mat að með þessum tillögum sé vel gætt að fjárhagsstöðu bæjarsjóðs en um leið sé þess gætt að nægt verkefnaframboð sé fyrir hendi til handa verktökum og iðnaðarmönnum á svæðinu. Starfshópurinn leggur í minnisblaðinu á það ríka áherslu að vel verði hugað að tímasetningu verkefna og samfélagslegum áhrifum þeirra.

Vert er að leggja á það áherslu að einungis er verið að fresta verkefnum. Einnig er mikilvægt að átta sig á því að nú um stundir er mikil óvissa, fyrir þær sakir er ekki hægt að útiloka að endurskoða þurfi sumar þeirra ákvarðana sem í dag voru teknar. Um leið og sagan segir okkur að á eftir óveðri kemur alltaf betra veður þá sanna ótal dæmi sögunnar að í óveðri er skynsamlegt að taka hvert skref af varúð og fyrirhyggju. Það er mitt mat að með ákvörðun dagsins hafi verið stigið yfirvegað og gott skref en um leið hafi varúðar verið gætt, með þeim hætti ætlum við að vinna okkur út úr þessum tímabundnu erfiðleikum.

Ólafsfjarðarvöllur: Mynd: Magnús Rúnar Magnússon.