Nýr salur Menntaskólans á Tröllaskaga hentar vel til sýningarhalds og hefur nú nýju verkefni skólans verið hrundið af stað, en það kallast Listamaður mánaðarins.  Verkefnið er ætlað að efla tengsl skólans og samfélagsins. Verkefnið felst í því að í hverjum mánuði sem skólahald fer fram verður einum listamanni af svæðinu boðið að sýna verk sín á afmörkuðu svæði í sal skólans. Þá mun listafólkið segja nemendum á listabraut frá verkunum, vinnuaðferðum sínum og listsköpun.

Fyrsti „listamaður mánaðarins“ var Guðrún Þórisdóttir, eða Garún eins og hún kallar sig. Hafa verk hennar verið til sýnis í skólanum síðastliðin mánuð. Hún er búsett í Ólafsfirði og hefur unnið þar að list sinni. Hún var kjörin bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2012, hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum.

Listamaður apríl mánaðar verður Arnfinna Björnsdóttir frá Siglufirði, sem var bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2017. Mun sýning með verkum hennar opna miðvikudaginn 11. apríl og vera uppi fram undir vorsýningu skólans er fer fram þann 12. maí.

Ljósmynd: Bjarni Grétar Magnússon/ Héðinsfjörður.is