Knattspyrnufélag Fjallabyggðar hefur samið við bandarískan sóknarmann sem er ætlað að fylla í skarðið sem Alexander Már skyldi eftir, en hann samdi við Fram eftir eina leiktíð hjá KF, þar sem hann gjörsamlega blómstraði og skoraði 28 mörk á síðasta tímabili.
Sachem Wilson er kominn til Fjallabyggðar, hann heitir fullu nafni Theodore Develan Wilson, og er frá Ohio í Bandaríkjunum og er 25 ára, fæddur í október 1994. Hann er 185 cm á hæð og 86 kg og getur spilað á miðju og sem framherji. Hann er örfættur en einnig góður á hægri fæti. Hann spilaði síðast með Carrick Rangers í Norður Írlandi í efstu deild, en hann kom á frjálsri sölu þangað sl. haust. Árin á undan spilaði hann með NK Krka, ND Adria Miren og ND Gorica í Slóveníu. Þar á undan, eða til ársins 2016 spilaði hann í bandarísku háskóladeildinni.
Það er mikilvægt fyrir hann að byrja mótið vel og hann fær eflaust stórt hlutverk í sumar hjá KF, gangi honum vel að aðlagast liðinu og deildinni. Sachem er 26. erlendi leikmaðurinn sem kemur til að spila með KF á síðustu 10 árum.
Gert er ráð fyrir að fyrstu leikir KF verði í deildarbikarnum í byrjun júní og eftir miðjan júní muni deildin hefjast. Tímibilið mun án efa vera erfitt fyrir KF þar sem talsverðar breytingar hafa orðið á leikmanna hópnum, og mun skipta sköpum að sækja stig á heimavelli í sumar og þar skiptir stuðningur stuðningsmanna öllu máli.