Úrslit í vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2019, liggja nú fyrir. Menntamálastofnun, í samstarfi við KrakkaRúv, efnir til keppninnar ár hvert í tilefni af degi íslenskrar tungu. Í keppninni spreyttu nemendur sig á því að botna fyrriparta eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson.

Að þessu sinni bárust samtals 535 vísubotnar frá 21 skóla víðs vegar að á landinu og greinilegt að áhugi fyrir vísnagerð er fyrir hendi í mörgum grunnskólum. Frá yngsta stigi bárust samtals 256 vísubotnar, 182 frá miðstigi og 97 botnar frá unglingastigi. Einum nemanda á hverju stigi voru veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjal fyrir besta vísubotninn. Á mið- og unglingastigi var gerð krafa um ljóðstafi og rím en á yngsta stigi var fyrst og fremst hugað að rími og innihaldi.

Í fyrsta sinn í níu ára sögu keppninnar koma tveir vinningshafar frá sama skóla, Grunnskólanum í Fjallabyggð, og greinilegt að þar á bæ hefur verið lögð mikil áhersla á kveðskaparlistina. Vinningshafi á miðstigi kemur úr Hofsstaðaskóla í Garðabæ sem leggur einnig mikla rækt við vísnagerð og átti skólinn m.a. vinningshafa á yngsta stigi fyrir tveimur árum.

Vinningshafarnir í ár eru eftirfarandi:

Á yngsta stigi var Aron Óli Ödduson hlutskarpastur en hann er nemandi í 4. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Vísubotn hans er hér feitletraður:

Heim ég fer með létta lund,
leik mér eftir skóla.
Fæ mér drykk og fer í sund,
fer svo út að hjóla.

 

Á miðstigi hlaut Andrea Hvannberg, nemandi í 6. bekk Hofsstaðaskóla í Garðabæ, verðlaun fyrir besta botninn í sínum aldursflokki:

Kuldinn bítur, komum út,
klæðum okkur betur.
Á kuldaskóna hnýti ég hnút
og hnerrann kveð í vetur.

 

Á unglingastigi fékk Helena Reykjalín Jónsdóttir, nemandi í 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar, verðlaun fyrir sinn vísubotn:

Manna verk er mengun öll,
margt sem þarf að laga.
Stöndum upp og stöðvum spjöll,
stefnum á betri daga.

Texti: mms.is