Nemendur Menntaskólans á Tröllaskaga prófuðu fjölbreyttar íþróttir í síðustu viku.

Nemendur fengu að reyna sig í skotfimi og prófa bæði riffil og haglabyssu í síðustu viku. Það gerðist við öruggar aðstæður á skotsvæðinu á Siglufirði undir stjórn Rögnvaldar Jónssonar og Gunnars Óskarssonar.

Nemendurnir nýttu íþróttahúsið í Ólafsfirði, fóru í boltaleiki og gerðu ýmsar æfingar. Meðal annars voru prófaðar nýjar útfærslur á gömlum leikjum sem reyndu á ýmsa vöðva sem ekki eru í daglegri notkun. Í íþróttahúsinu á Siglufirði var farið í bandý og hópurinn fékk kynningu á boccia hjá Helgu Hermannsdóttur.

Klifur var iðkað á þar til gerðum veggjum bæði úti og inni og einnig reyndu nemendur sig í kassaklifri.

Hópur nemenda fór í yoga hjá Erlu Jóhannsdóttir. Æfingarnar þóttu mjög erfiðar. Þær reyndu á styrk, jafnvægi, og liðleika en endað var á slökun. Annar hópur fór í crossfit hjá Guðrúnu Ósk Gestsdóttur, sem hafði heildarumsjón með miðannaráfanganum. Honum lauk með útileikjum og grillveislu í skógræktinni á Siglufirði.

Fleiri myndir má finna á vef MTR.

Heimild: mtr.is