Menntaskólinn á Tröllaskaga skráði sig í lok október í verkefnið Græn skref í Ríkisrekstri. Skólinn hefur hlotið viðurkenningu fyrir fyrsta Græna skrefið. Innleiðing skrefsins gekk fljótt og vel í skólanum og er endurnýtingu hluta gert hátt undir höfði. Í listsköpun sinni nýta nemendur til að mynda alls konar hluti sem falla til á heimilum og í skólanum og búa til hluti og list úr slíkum efnivið.
Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun kom í skólann og skoðaði sérstaklega flokkunarmál og innkaup með tilliti til þess hvort keyptar væru vistvænar hreingerningavörur og pappír. Skilyrði er að nota umhverfisvottaðar vörur. Markmið verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri eru að efla vistvænan rekstur á kerfisbundinn hátt. Tilgangurinn er að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta ímynd og starfsumhverfi stofnana og draga úr kostnaði.
Tengiliður verkefnisins í MTR er Unnur Hafstað en við framkvæmdina reynir mest á Björgu Traustadóttur, Gísla Kristinsson og Jónínu Kristjándóttur, sem sjá um rekstur, innkaup og þrif hússins.
Þess má geta að Vínbúðin á Siglufirði hóf þátttöku í verkefninu í lok árs 2014 og hefur lokið fimm grænum skrefum.