MTR hefur stigið þriðja skrefið í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri, fyrstur framhaldsskóla landsins. Þorbjörg Sandra Bakke, starfsmaður Umhverfisstofnunar, afhenti viðurkenningu á þessu í skólanum um miðjan maí. Tengiliður verkefnisins er Unnur Hafstað, kennari á náttúruvísindabraut.
Í grænu skrefunum er mikið lagt upp úr því að starfsmenn gangi eða hjóli til vinnu og öll aðstaða styðji þá virkni. Vegna aðstæðna í MTR þar sem um helmingur starfsmanna býr handan jarðganga, langan veg frá skólanum er krefjandi að uppfylla nægilega mörg skilyrði til að mæta kröfum verkefnisins að þessu leyti. Það tókst þó og gott betur því skólinn fékk líka stig fyrir ýmsa aðstöðu sem styður við skíðagöngu, íþrótt sem löng og mikil hefð er fyrir í Fjallabyggð.
Grænt bókhald hefur verið tekið upp og sér Jónína Kristjánsdóttir um það. Græna bókhaldið tekur til samgangna, úrgangs og notkunar á orku, pappír og tilteknum efnum. Tölulegar upplýsingar um þessi atriði eru forsenda þess að hægt sé að setja mælanleg markmið um að draga úr óæskilegri notkun. Úr græna bókhaldinu fást líka upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda sem eru forsenda aðgerða til að minnka losun og síðan er hægt að kolefnisjafna það sem eftir stendur. Við framkvæmd þessara atriði reynir mikið á Gísla Kristinsson og Björgu Traustadóttur sem sjá um innkaup, viðhald og ræstingu.
Það er stefna skólans að gera starfsemina umhverfisvænni, bæta starfsumhverfi og auka vellíðan nemenda og starfsmanna. Markmið verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri eru að efla vistvænan rekstur á kerfisbundinn hátt. Byggt er á grænum skrefum Reykjavíkurborgar, verkefni sem hófst árið 2014. Nokkrar stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytis tóku þátt í að laga verkefnið að ríkisrekstri. Tilgangurinn er að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta ímynd og starfsumhverfi stofnana og draga úr kostnaði. Það er Umhverfisstofnun sem sér um verkefnið en umhverfis- og auðlindaráðuneytið fjármagnar það. Sjá nánar hér: https://graenskref.is/um-verkefnid/
Heimild: mtr.is