Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Þrótt Reykjavík (B-lið) í Benectadeildinni í blaki í dag á Siglufirði. Leikurinn var mjög mikilvægur fyrir bæði lið en BF var í neðsta sæti fyrir leikinn og Þróttur í næstneðsta sæti. Bæði lið komu ákveðin til leiks og voru Þróttarastelpur heldur sterkari í upphafi fyrstu hrinu. Þróttur komst í 0-2, 2-4 og 3-6 en þá kom góður kafli hjá BF sem skoraði fjögur stig í röð og komst yfir 7-6. Þróttur jafnaði 7-7 en BF skoraði aftur fjögur stig í röð og komust í 11-7 og gerði Þróttur tvær skiptingar. Þróttur átti nú góðan kafla eftir breytingar á liðinu og skoraði 5 stig í röð og komust í 11-12 og tóku nú heimakonur leikhlé. BF stelpur komu ákveðnar í leikinn eftir hlé og jafnt var á tölum 12-12 og 13-13 en skoraði svo BF fjögur stig í röð og komust í 17-13 og 20-16. Spenna var í lok hrinunnar og jafnræði, en staðan var 20-18 og 22-20 og tóku nú BF konur annað leikhlé.  Þróttur jafnaði 22-22 og gerði nú BF skiptingu og skoruðu síðustu þrjú stigin og unnu fyrstu hrinuna eftir mikla baráttu 25-22.

Í annari hrinu var jafnræði milli liðanna fram í miðja hrinu en þá tók BF völdin á vellinum. Jafnt var á tölunum 2-2, 4-4 og 6-6. BF seig svo aðeins framúr og náðu tveggja stiga forystu og var staðan 8-6, 10-8 og 12-10.  BF tók nú forystu og voru sterkari út hrinuna og komust í 16-11 og tóku nú gestirnir leikhlé. Í þessari hrinu skoraði BF 9 stig í röð og lögðu grunninn af sigrinum í hrinunni og komust í 22-11 og aftur tók Þróttur leikhlé. Þróttur náði þremur stigum í viðbót og breyttu stöðunni í 23-14 en BF kláruði hrinunna 25-14 og staðan orðin 2-0.

Í þriðju hrinu komu BF stelpur aftur grimmar til leiks og leiddu alla hrinuna og áttu mjög góða leikkafla í hrinunni. BF komst í 6-2, 8-3 og 11-4 og tóku nú gestirnir leikhlé. BF komst í 14-5 en Þróttarar skoruðu 4 stig í röð og var staðan orðin 14-9.  BF svaraði með sex stigum í röð og aftur tók Þróttur leikhlé. Staðan var sterk fyrir BF í stöðunni 20-9 og 22-12. Þróttarar hleyptu smá spennu í leikinn í lokinn og komust þær í 24-19, en BF var betra liðið og unnu hrinuna 25-19 og leikinn 3-0.

Frábær sigur hjá BF í dag og eru þær nú komnar úr botnsætinu með þessum sigri á Þrótti Reykjavík B.