Mikill vöxtur hefur verið í fiskeldi á Íslandi undanfarin ár og heildarframleiðslumagn hefur nær fjórfaldast á síðustu tíu árum. Framleidd voru rúm 19 þúsund tonn árið 2018 sem reyndar var samdráttur um tæp 1,8 þúsund tonn samanborið við árið 2017. Tekjur fyrirtækja í fiskeldi námu rúmum 19 milljörðum árið 2017 og hafa aukist mikið á undanförnum árum. Mikil fjárfesting hefur verið í greininni á síðustu árum en þrátt fyrir það er eiginfjárhlutfall sterkt, eða um 51% árið 2017. Árið 2017 voru 435 launþegar hjá fiskeldisfyrirtækjum. Samhliða auknum umsvifum hefur útflutningsverðmæti fiskeldisafurða aukist mikið og nam 13,1 milljarði árið 2018. Uppistaðan í fiskeldinu voru lax og bleikja, en árið 2018 voru framleidd 13,5 þúsund tonn af eldislaxi og tæp 5 þúsund tonn af bleikju. Samkvæmt Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins, var Ísland í fjórða sæti yfir Evrópulönd sem framleiða eldislax árið 2016 og hér var framleitt mest magn af bleikju. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Framleiðslumagn þriggja helstu tegunda í fiskeldi
Heimild: Hagstofa Íslands

Eldistegundir og fyrirtæki
Magn slátraðs eldisfisks hefur næstum fjórfaldast á síðustu 10 árum og nam rúmum 19 þúsund tonnum árið 2018. Mest aukning hefur orðið í laxeldi sem fer úr 292 tonnum árið 2008 í tæp 13,5 þúsund tonn árið 2018. Bleikjueldi hefur verið stöðugra yfir tímabilið en tæpum 5 þúsund tonnum var slátrað á síðasta ári samanborið við 3,1 þúsund tonn árið 2008. Eldi á regnbogasilungi jókst mikið á tímabilinu og náði hámarki árið 2017 þegar 4,6 þúsund tonnum var slátrað en árið 2018 nam framleiðslan einungis 295 tonnum. Bleikja er alin í ferskvatni, en mikið er um að eldi laxaseiða og regnbogasilungsseiða sé í ferskvatni áður en fiskarnir eru settir í sjókvíar.

 

Fjöldi launþega hjá fiskeldisfyrirtækjum hefur aukist mikið á síðustu árum og voru um 435 manns árið 2017. Tekjur fyrirtækja í fiskeldi námu 19,3 milljörðum árið 2017 og hafa ríflega tvöfaldast frá árinu 2015. Þá hefur eiginfjárstaða atvinnugreinarinnar styrkst umtalsvert síðustu ár samhliða því sem lagt hefur verið í miklar fjárfestingar, sem sjá má í vexti varanlegra rekstrarfjármuna.

Útflutningur á laxi árið 2017 var aðallega til Bandaríkjanna, Bretlands, Danmerkur, Hollands og Þýskalands. Bleikja hefur aðallega verið flutt út til Bandaríkjanna, Japan, Póllands og Þýskalands. Árið 2016 var Ísland var í 4 sæti yfir Evrópulönd sem framleiða mest af eldislaxi. Hins vegar var eldi á bleikju árið 2016 hvergi meira í Evrópu en á Íslandi.

Heimild: hagstofa.is