Bjarni Jónasson fagnaði sigri á lokakvöldi Meistaradeildar Norðurlands sem fram fór í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki í vikunni en keppt var í slaktaumatölti og skeiði.
Keppnin var æsispennandi og á endanum voru það fimm sekúndubrot sem réðu úrslitum. Mesta baráttan stóð á milli Bjarna Jónassonar sem hafði fyrir lokakvöldið 22 stig og Sölva Sigurðarsonar sem var með einu stigi minna. Sölvi endaði svo einu sæti ofar en Bjarni í fyrri keppnisgrein kvöldsins, slaktaumatölti, og þeir voru jafnir fyrir lokagreinina sem var skeið.
Mette Mannseth á Þúsöld frá Hólum rann skeið sprettinn á fimm sekúndum sléttum. Hestur Sölva, Steinn frá Bakkakoti, lá ekki í fyrri ferð en Bjarni og Hrappur frá Sauðárkróki náðu frábærum tíma 5,09 og settu pressu á Sölva fyrir seinni umferðina. Mette bætti tímann í 4,96 en Sölvi jafnaði tíma Bjarna og Hrapps og spennan í loftinu var mikil. Seinni sprettur Bjarna og Hrapps var magnaður og tíminn 5,04 sem tryggði honum sigur í heildarstigakeppni Meistaradeildar Norðurlands þetta árið.